Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Brexit – næstu 50 árin

16.12.2020 - 20:09
Mynd: EPA-EFE / EPA
Fríverslunarsamningur við Evrópusambandið mun ekki binda neinn endahnút á Brexit-umræðuna. Það verður ekki undið ofan af 47 ára samband Breta við ESB á nokkrum mánuðum. Báðir stóru flokkarnir, Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn glíma við sinn þátt í þeirri sögu.

Einfalda sigursetningin 2016 þegar Johnson varð næstum leiðtogi

Ef hægt er að sjóða niður í eina setningu hvað fleytti Boris Johnson í forsætisráðherrastólinn á endanum er það sigursetningin úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016 um breska ESB-aðild.

,,Tökum aftur stjórnina,“ ,,take back control“ reyndist sigursælt slagorð og í kjölfarið virtist Boris Johnson augljóst leiðtogaefni. En Michael Gove, nánasti samverkamaður Johnsons í Brexit-baráttunni, brá fyrir hann fæti.

Eftir að gaumgæfa Johnson sagðist Gove hafa komist að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki vandanum vaxinn. Í staðinn bauð Gove sig fram, Johnson ætti að stíga til hliðar. – Það gerði Johnson, framboð Goves strandaði og Theresa May varð leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra.

2019: May fellur fyrir Brexit og Johnson finnur næsta einfalda slagorðið

Eftir að reyna árangurslaust í þrjú ár að taka Brexit-stjórnina féll May. Í leiðtogakjörinu 2019 var Johnson augljósi sigurvegarinn. Og já, Gove studdi hann, uppskar líka sæti í ríkisstjórninni. Í næstu kosningabaráttu, fyrir ári, varð annað einfalt slagorð sigursælt.

,,Hespum Brexit af, höldum áfram með verkefni okkar,“ sagði Johnson. Og loforðið bergmálaði í orðum Johnsons eftir sigurinn. – Stjórnin hefði nú umboð til að hespa Brexit af, útgangan yrði í janúarlok, ekkert ef og en og kannski. Loforðið um endahnútinn náði einnig til fríverslunarsamningsins sem allt hefur strandað á undanfarið.

Loforðin stutt og laggóð, veruleikinn langur og flókinn

Loforðin eru öll stutt og laggóð, allt einfalt – en raunin er önnur, jafnvel með fríverslunarsamning. Bretar eru að yfirgefa evrópska markaðssvæðið eftir að hafa verið með í uppbyggingu þess í 47 ár og það mun taka ár og jafnvel áratugi að vinda ofan af þeirri samþættingu. Á meðan halda einföldu loforð Íhaldsflokksins áfram að stangast á við flókinn veruleikann.

Vandi Verkamannaflokksins annar en ámóta snúinn

Vandi Verkamannaflokksins er annar, en ámóta snúinn. Flokkurinn tók afstöðu 2016 með aðild Breta að Evrópusamvinnunni. Það veiklaði mjög þann málstað að þáverandi leiðtogi flokksins, Jeremy Corbyn, hafði verið andstæðingur aðildar alveg síðan hann, þá ungur þingmaður, greiddi atkvæði gegn henni á áttunda áratugnum.

Corbyn virtist þjást að þurfa að styðja ESB-aðild og tvinnaði þann boðskap saman við að bæta ESB, sem veiklaði boðskapinn. Hann vísaði gjarnan til mikilvægis ESB-aðildar fyrir réttindi vinnandi fólks, þess vegna berðist flokkurinn fyrir veru Breta í ESB; já vera í ESB til að betrumbæta það.

Máttleysisleg barátta Verkamannaflokksins 2016 átti án efa þátt í að málstaður flokksins varð undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Kosningatap og nýr ESB-sinna leiðtogi í glímu við þjóðarheill

Eftir kosningatapið í fyrra var Corbyn allur sem flokksleiðtogi. Eftirmaðurinn Keir Starmer er ESB-sinni af lífi og sál og talar nú eindregið fyrir fríverslunarsamningi Breta við ESB.

Það liggur enn enginn samningur fyrir, sagði Starmer nýlega og hvatti forsætisráðherra til að semja. Flokkurinn myndi síðan gaumgæfa samninginn. Samningslaus útganga gengur þvert á þjóðarheill og við fylgjum þjóðarheill, sagði flokksleiðtoginn, sem fór þarna giska nærri að lofa að styðja samning, hvernig sem hann yrði.

Snarlegt Brexit gæti verið óskastaða Verkamannaflokksins

Desember-kosningarnar, sem ruddu braut Starmers í leiðtogasætið, sýndu tvennt. Kjósendum líkaði loforð Íhaldsflokksins um að klára Brexit. Líka ein helsta ástæðan fyrir því að fyrrum kjósendur Verkamannaflokksins í Norður-Englandi gengu Íhaldsflokknum á hönd.

Þegar Brexit verður frá gæti Verkamannaflokkurinn fræðilega séð unnið þessa kjósendur aftur á sitt band. Því ástæða fyrir Starmer að óska þess að Brexit verði hespað af, með fríverslunarsamningi sem þá Verkamannaflokkurinn styddi.

Hluti af þingflokknum á öndverðum meiði við leiðtogann

En, í þingflokki Starmers heyrast aðrar raddir, að Verkamannaflokkurinn eigi fyrir enga muni að greiða atkvæði með samningnum. Samningurinn sé enginn Brexit-endahnútur. Brexit leiði til öngþveitis, sem Íhaldsflokkurinn eigi endilega að sitja einn uppi með. Nei, Verkamannaflokkurinn alls ekki að deila þeim vanda með höfuðandstæðingnum.

Brexit er vandi beggja stóru flokkanna – og mögulegt deiluefni næstu hálfa öld

Það er því vandi fyrir báða stóru flokkana að Brexit verður ekki hespað af. Deilur um samband Breta við Evrópu hafa sett svip á bresk stjórnmál undanfarna hálfa öld. Ætli það verði ekki það sama – næstu fimmtíu árin.