Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bandaríkjamenn búast við hugmyndauðgi í jólagjöfum

16.12.2020 - 02:58
Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Sex af hverjum tíu Bandaríkjamönnum búast við að fá „hugmyndaríkari“ gjafir um þessi jól en áður. Þetta sýnir ný könnun á vegum OnePoll þar sem sjónum var beint að kauphegðun fyrir jólin á þessu óvenjulega ári.

Könnunin náði til tvö þúsund manns sem að stærstum hluta kváðust ætla að gera allt sem hægt væri til að jólin yrðu minnistæð í ár. Einn af hverjum fimm sagðist hafa byrjað jólainnkaupin þegar í september og 95% áður en desember gekk í garð.

Sjö af hverju tíu sagðist leita á netinu að hagstæðu verði og afslætti enda netverslun með mesta móti fyrir þessi jól. Flest sem spurð voru hyggjast kaupa megnið af jólagjöfunum á netinu og bjuggust við að það leiddi af sér að meira spennandi hlutir yrðu fyrir valinu.

Hjá þeim sem ætla að versla í raunheimum verða stórar verslanir með breitt vöruúrval fremur fyrir valinu en þær smærri, svo fækka megi verslunarferðum.

Yfir fjörutíu prósent aðspurðra kváðust ætla að kaupa jólagjafir handa fólki sem það hefði aldrei gefið nokkuð áður og að meðaltali ætlar fólk að verja 370 Bandaríkjadölum í jólagjafakaup , eða sem nemur um 47 þúsund krónum.