Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Appelsínugul viðvörun vegna úrkomu á Austfjörðum

16.12.2020 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun á Austfjörðum vegna áframhaldandi úrkomu. Viðvörunin tekur gildi klukkan 17 í dag og má búast við talsverðri úrkomu fram á kvöld. Þá dregur aðeins úr henni fram til klukkan 17 á morgun þegar bætir í að nýju. Bjarki Borgþórsson, eftirlitsmaður Veðurstofunnar og lögregluþjónn á Seyðisfirði, segir að í gær hafi brostið sprunga sem fylgst hafi verið með frá árinu 2002.

Hætta er á að áframhaldandi úrkoma valdi grunnvatnsþrýstingi og viðhaldi hárri grunnvatnsstöðu. Enn er því hætta á vatnsflóðum og skriðuföllum og mikil hætta á vatnstjóni vegna álags á fráveitukerfi. Uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði er komin yfir 350 mm. 

Hættustig í gildi vegna skriðufalla á Seyðisfirði

Á Austfjörðum er líka enn í gildi óvissustig vegna skriðuhættu, og á Seyðisfirði er í gildi hættustig vegna skriðufalla. Síðdegis í gær losnaði um hundrað metra breið fylla úr Botnabrún yfir Seyðisfirði, um hundrað metra yfir sjávarmáli, og fór í lækjarfarveg sem beindi henni niður á milli húsa innan við listamiðstöðina Skaftfell.

Þar liggur gatan Austurvegur sem varð eins og braut fyrir skriðuna. Þar hlóðst upp hár stabbi af grjóti, leðju og vatni sem síðan lak niður í allar áttir og aurinn lagðist upp að húsum.

Myndskeiðið hér að neðan var birt á Facebook-síðu Veðurstofunnar í dag. Daníel Örn Gíslason hjá björgunarfélaginu Ísólfi tók myndskeiðið í morgun, sem sýnir hvernig skriður hafa umlukið húsin í byggðinni.

Rýming í gildi til morguns

Rýming húsa á Seyðisfirði verður áfram í gildi til morguns. Frá þessu greinir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Eskifirði, í tilkynningu til fjölmiðla.
Það hefur verið skaplegt veður á Austurlandi í dag eftir miklar rigningar síðustu daga.

Í dag var birtan nýtt til að vitja eigna, kanna tjón á þeim og verja fyrir meiri rigningu í kvöld og nótt. Lögreglan gerir ráð fyrir að þeir sem hafi farið inn á lokaða svæðið í dag séu farnir, og hafi farið fyrir klukkan 16:30 í dag. Lögreglan og björgunarsveitir fylgdu þeim sem búa innan lokaða hættusvæðisins á Seyðisfirði inn á svæðið.

Dæla vatni úr kjöllurum

Slökkviliðið hefur einnig dælt vatni úr kjöllurum húsa þar sem flætt hefur inn. Þá voru einhverjir sem grófu skurði til þess að beina vatnsflaumnum réttar leiðir og fram hjá húsum sínum. 

Bjarki Borgþórsson, eftirlitsmaður Veðurstofunnar og lögregluþjónn á Seyðisfirði, segir í samtali við fréttastofu að björgunarsveitir hafi flogið dróna í dag og myndað fjallshlíðina. Myndirnar voru sendar Veðurstofunni síðdegis sem rannsakar þær og metur. Í ljós hefur komið að sprunga sem fylgst hefur verið með síðan 2002 brast í gær. Vitað er um fleiri sprungur í Botnabrún fyrir ofan bæinn.

Þó mikið rigni þá hefur leysingavatn einnig vegið þungt í atburðunum á Seyðisfirði.  Bjarki segir gott að enn sé frost efst í fjallinu, því fjallstopparnir eru þá ekki að fóðra vatni niður hlíðarnar. Það er þó víst að vatn úr snjó sem bráðnaði neðar í fjallinu hafi mettað jarðveginn áður en það rigndi stanslaust ofan í allt saman.