Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vonbrigði að geta ekki skilað rekstri öldrunarheimila

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Bæjarstjórinn á Akureyri segir það vonbrigði að ekki hafi náðst samningar við ríkið um að bærinn skilaði af sér rekstri Öldrunarheimila Akureyrar um áramót. Sams konar samningar eru við þrjú önnur sveitarfélög.

Það eru Akureyrarbær, Vestmannaeyjarbær, Fjarðabyggð og Sveitarfélagið Hornafjörður sem hafa sagt upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur öldrunarheimila. Samningar við Vestmannaeyjar og Akureyri áttu að renna út um áramót, við Hornafjörð 1. febrúar og Fjarðabyggð 1. apríl.

Samningar framlengdir á Akureyri og í Vestmannaeyjum

Vestmannaeyjabær og Akureyrabær hafa nú samið um að framlengja samninginn. Hornafjörður ætlar ekki að framlengja að óbreyttu og hjá Fjarðabyggð er enn miðað við 1. apríl. „Það kom ósk frá Sjúkratryggingum og heilbrigðisráðuneyti um að við myndum halda rekstrinum áfram næstu fjóra mánuðina og með ákveðinni meðgjöf, þannig að við urðum við því.“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Sjúkratryggingar hafi ekki upplýst um hvað taki við

Forsvarsmenn öldrunarheimila hafa lýst áhyggjum af þeirri óvissu sem fylgir uppsögn samninganna og Ásthildur segir þessa framlenginu núna ekki breyta því að svo stöddu. „Nei þetta leysir í rauninni ekki úr þeirri óvissu. Og það hefur ekki komið fram hjá Sjúkratryggingum hvað muni taka við.“ Það sé skýr afstaða Akureyrabæjar að reka öldrunarheimilin ekki lengur en þessa fjóra mánuði sem nú hefur verið samið um. Það sé nefnd að skoða þetta rekstrarumhverfi og þá komi væntanlega í ljós að daggjöldin séu ekki nógu há. „Við höfum ítrekað óskað eftir upplýsingum um það hvað muni taka við, en það hefur ekki komið neitt hvað það varðar. En ég er sannfærð um að það verði leyst með góðum hætti þannig að það verði engin upplausn hvorki hjá starfsfólki eða íbúum.“

Tryggt að bærinn beri ekki kostnað af framlengingu

„Þeir samningar sem við getum núna eru þannig að við tryggjum að við verðum ekki fyrir skakkaföllum varðandi reksturinn. Þannig að við eigum að vera skaðlaus,“ segir Ásthildur, en sú ákvörðun að skila rekstri öldrunarheimilanna til ríkisins er talin skila mestri hagræðingu í fjárhagsáætlun næsta árs. „Þetta verður aðeins öðruvísi, við tökum á okkur nýjar skyldur þessa fjóra mánuði og fáum greitt fyrir það. Þannig að við teljum að þetta geti gengið upp á þeim forsendum.“

Vonbrigði að þurfa að framlengja samningum

En hún segir það vonbrigði að svona skyldi fara. „Já að sjálfsögðu. Við lögðum af stað með það að þetta yrði unnið með góðum hætti og í góðu samstarfi við okkur og það voru gefin ákveðin fyrirheit með það, en því miður þá er staðan þessi. Ég hefði viljað hafa þetta öðruvísi, sérstaklega í ljósi þess að þetta hefur skapað óvissu fyrir starfsfólk og íbúa.“