Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir Samherjamálið vekja spurningar um DNB-bankann

15.12.2020 - 19:25
Mynd: Stefán Drengsson / RÚV
Norskur skattasérfræðingur segir Samherjamálið vekja upp spurningar um hvort norski bankinn DNB hafi hleypt vafasömum greiðslum frá fleirum en dótturfyrirtækjum útgerðarfyrirtækisins í gegn. 

Økokrim, norska efnahagsbrotalögreglan, rannsakar hvort DNB bankinn hafi mögulega brotið lög - með því að tilkynna ekki greiðslur - frá félögum í eigu Samherja til fyrirtækis í Dúbaí í eigu þáverandi stjórnarformanns namibísku ríkisútgerðarinnar, Fishcor, líkt og Kveikur greindi frá fyrr í vikunni. 

Bankinn kannaði greiðslurnar ekki fyrr en eftir að fjallað var um Samherjamálið í Namibíu í Kveik, Stundinni og hjá Al Jazeera síðla árs í fyrra. Dæmi eru um greiðslur frá árinu 2014 og bankinn gæti átt yfir höfði sér háa sektargreiðslu vegna ónógra varna gegn peningaþvætti. Norska ríkisstjórnvarpið, NRK, ræddi við sérfræðing í gær um gögn um málið sem lögð hafa verið fyrir dómara í Namibíu.

„Um er að ræða skúffufyrirtæki og yfirfærslur sem koma ekki heim og saman við starfsemi fyrirtækisins, svo það má spyrja sig hvort DNB hafi yfirleitt látið slíkar færlsur fara í gegn,“ sagði Sigrid Klæboe Jacobsen, framkvæmdastjóri samtakanna Tax Justice Network í Noregi, í samtali við NRK. 

Bankinn hefur lokað reikningum Samherja þar sem skýringar á millifærslum til aflandsfélaga þóttu ekki fullnægjandi.

Sex manns, þar á meðal fyrrum ráðherrar, hafa setið í fangelsi í Namibíu í ár vegna málsins og hefur verið gefin út ákæra á hendur þeim fyrir spillingu, mútuþægni og misnotkun á valdastöðu í tengslum við viðskipti við Samherja með hrossamakrílskvóta. Nokkrir stjórnendur Samherja hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á málinu hér á landi.