Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meira en 100% aukning frá erlendum netverslunum

15.12.2020 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjöldi pakkasendinga til landsins á vegum DHL núna fyrir jólin hefur meira en tvöfaldast á milli ára og íslenskar netverslanir senda margfalt fleiri sendingar til útlanda nú en áður. Í þeim eru aðallega lundabangsar, lopapeysur og íslenskrar snyrtivörur.  

„Það hefur verið gríðarlegt álag á sendingakerfinu, það er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur. Við höfðum undirbúið okkur undir að það yrði aukning á milli ára. En aukningin hefur verið töluvert meiri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Björn Ásbjörnsson sölu- og markaðsstjóri DHL á Íslandi.

Hann segir að samkomutakmarkanir hafi verið töluverð áskorun fyrir starfsemina þar sem eingöngu megi vera tiltekinn fjöldi starfsmanna á hverju starfssvæði. Það hafi getað valdið töfum á afhendingu sendinga. Hann segir að um 3.000 pakkasendingar komi til landsins á hverjum degi.

„Og meirihlutinn af þeim er að fara í heimahús. Meirihlutinn af þessu er að koma frá Asíu. En við erum líka með sendingar frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Norðurlöndunum. Aukningin miðað við sama tíma í fyrra er yfir 100% á milli ára.“

Þá hefur mikil aukning verið á sendingum íslenskra netverslana til annarra landa.  „Við erum að horfa á suma daga þar sem það er yfir 200% á milli ára,“ segir Björn.

Hann segir að aðallega sé um að ræða ullarvörur og þá aðallega lopapeysur. „Svo eru þetta minjagripir,  það er verið að selja lunda til dæmis.  Og svo eru þetta líka snyrtivörur.“

Björn segir að ekki sé orðið of seint að panta frá erlendum netverslunum fyrir jólin. „Við eigum að geta komið sendingum frá Evrópu á 1-2 dögum til landsins.“