Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kenna verklega líftækni í gegnum fjarfundarbúnað

15.12.2020 - 09:30
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Þegar ákveðið var að aflýsa verklegum lotum í Auðlindadeild Háskólans á Akureyri og allir nemendur voru sendir heim tók aðjúnkt við deildina málin í sínar hendur. Nemendur fengu búnað sendan heim að dyrum og gátu með hjálp tækninnar gert tilraunir heima í stofu.

Óvenjulegir tímar kalla á óvenjulegar kennsluaðferðir

Sean M. Scully, aðjúnkt við skólann segir að óvenjulega tíma kalla á óvenjulegar kennsluaðferðir en stúdentar fengu það verkefni að einangra ensím úr eggjahvítum. Það kann að hljóma flókið en með nokkrum tækjum, tólum og ekki síst kennaranum á fjarfundi er ýmislegt hægt.  

„Við sendum nemendum poka með öllu þvi sem þarf til að framkvæma tilraun heima hjá sér sem þau myndu annars gera hérna í skólaum hjá okkur,“ segir Sean.

„Gerðum bara svona litla stöð heima“

Hugrún Ása Gylfadóttir, nemi á öðru ári í líftækni tók þátt í verkefninu. „Við fengum semsagt allt sent heim og gerðum bara svona litla stöð heima og vorum með Sean bara í vefmyndavél á Zoom og hann var að leiða okkur í gegnum þetta á meðan.“

Hvernig gekk að framkvæma þetta?

„Bara mjög vel, það reyndar fór eggjarauða og eitthvað svoleiðs út um allt hjá mér í fyrsta en svo gekk þetta bara.“

Misstu af nær öllu verknámi

Heiðdís Fríða Agnarsdóttir, nemi í líftækni tekur í sama streng. „Námið okkur snýst rosa mikið um verklegt og að læra alls konar aðferðir inn á tilraunastofu en við höfum ekki mátt koma í skólann þá misstum við eiginlega af öllu því sem frekar slæmt sko en það er mjög gott að Sean hafi leyft okkur að gera þetta heima.“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Úr kennslu nú í vetur