Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Jarðvegur gegnsósa og skriðuhætta eystra

15.12.2020 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Jarðvegur er gegnsósa eftir miklar rigningar á Suðausturlandi og Austfjörðum. Aurskriður fellu í ár á Eskifirði og Seyðisfirði í gær og Veðurstofan varar við því að brekkur og hlíðar geti skriðið fram.

„Það var mikið vatnsveður í síðustu viku og svo dró aðeins úr því um helgina og sjatnaði vel í lækjum og ám. En fór svo að rigna aftur en snjóaði þá niður í svona 2-300 metra hæð sem þá dregur úr skriðuhættunni uppi. En við búumst við að það geti farið einhverjar aurskriður í neðri hlutum hlíða,“ segir Sveinn Brynjólfsson á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands. 

Hann segir að fylla sem féll í Ljósá á Eskifirði um hádegisbil í gær hafi litað út á sjó en minni spýja féll í Nautaklauf á Seyðisfirði. Fyrir hádegi hafði ekki frést af skriðum frá því í nótt enda birtir seint og skyggni lélegt. 

„Það ætti nú að draga úr úrkomunni í nótt og vera minni úrkoma á morgun en svo bætir aftur í annað kvöld trúlega. En vonandi snjóar þá líka í fjöllin eins og núna þannig að það verði þá minna vatn á ferðinni. Það er bara rétt að hafa varann á þar sem fólk er undir fjallshlíðum. Það er ekki gott að segja hvar skriðurnar geta komið en það er greinilegt að jarðvegur er orðinn vatnssósa víða og menn þurfa að hafa varann á sér,“ segir Sveinn Brynjólfsson.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV