Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Íslenskt fyrirtæki passar upp á bóluefni Pfizer

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Íslenska upplýsingafyrirtækið Controlant leikur stórt hlutverk þegar kemur að dreifingu bóluefnisins frá Pfizer Fyrirtækið greindi frá því á vef sínum í dag að það hefði samið við lyfjarisann um skynjara sem fyrirtækið hefur hannað. Skynjararnir fylgjast með hitastiginu sem bóluefnið er geymt við og láta vita ef eitthvað er að fara úrskeiðis.

Flókið er að flytja bóluefnið frá Pfizer. Það þarf að geymast í 80 stiga frosti svo það skemmist ekki. Þar kemur íslenska fyrirtækið Controlant til sögunnar en það hefur þróað tækni,  nokkurs konar hitaskynjara, sem lætur vita ef hitastigið breytist á meðan bóluefnið er flutt.

Sjá mátti tækið frá Controlant á blaðamannafundi Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York,  fyrr í þessum mánuði þar sem hann sýndi hvernig bóluefnið frá Pfizer er flutt og geymt.  Cuomo útskýrði meðal annars að tækið frá Controlant fylgdist bæði með því hvar bóluefnið væri statt og hvort hitastigið væri rétt.

Á vef Controlant er haft eftir Tanyu Alcorn, yfirmanni hjá Pfizer, að fyrirtækið hafi orðið fyrir valinu þar sem það geri yfirvöldum kleift að fylgjast með flutningi bóluefnisins. Það fylgist með hitastiginu og geti brugðist við ef eitthvað óvænt kemur upp á í dreifingunni. 

Þá  kemur einnig fram að fyrirtækið vinni náið með bandarískum yfirvöldum, meðal annars sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, heilbrigðisráðuneytinu og hlutaðeigandi aðilum í Operation Warp Speed bóluefnaverkefni bandarískra stjórnvalda. Skynjari fyrirtækisins verður því notað í dreifingu bóluefnisins um öll Bandaríkin.

Controlant hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands fyrr á þessu ári. Þar kom meðal annars fram að lausnir félagsins yrðu mikilvægur hlekkur í dreifingu bóluefna við COVID-19 sem væri eitt erfiðasta heilbrigðisvandamál sem heimsbyggðin væri að fást við.  Nýlegir samningar sem Controlant hefur gert myndu tífalda veltu fyrirtækisins í um 4 til 5 milljarða á næstu tveimur árum.