Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hús rýmd á Seyðisfirði eftir aurskriðu í miðjum bænum

15.12.2020 - 16:18
Mynd: Aðsend mynd / Aðend mynd
Hús á svæði C á Seyðisfirði hafa verið rýmd eftir að skriða lenti á húsi við Botnahlíð. Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavörnum segir að óverulegt tjón hafi orðið. Óvissustigi hefur verið lýst yfir. Skriðuhætta hefur verið á Austurlandi vegna mikilla rigninga.

Þessi frétt hefur verið uppfærð

Rögnvaldur segir að þetta hafi verið fjórða skriðan á síðustu tólf tímum. Mikið vatnsveður gerði á Austurlandi og Suðausturlandi í síðustu viku. Það fór síðan að draga aðeins úr því um helgina en síðan fór aftur að rigna.

Diljá Jónsdóttir, sem býr við Botnahlíð, segir að skriða hafi fallið á hús hennar um hálf tvö. Hún hafi náð upp að glugga og svo fæði sitthvoru meginn. Hún er flúin á hótel en eiginmaður hennar er í björgunarsveit.

Hún varð ekkert var við það þegar skriðan féll.  „Ég sat inni í stofu og maðurinn minn var aðeins að útrétta. Þegar hann kom aftur sagði hann að við þyrftum að fara því það hefði komið aurskriða á húsið.“ Þegar þeir fóru hafi sonur hennar sagst hafa heyrt drunur úr fjallinu.  

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

Nú skömmu fyrir fimm barst eftirfarandi tilkynning frá almannavörnum.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands lýsa yfir óvissustigi almannavarna á Seyðisfirði eftir að tvær aurskriður féllu úr Botnum annarsvegar niður í Botnahlíð og á Austurveg. Önnur skriðan féll á hús en samkvæmt fyrstu upplýsingum eru skemmdir sagðar óverulegar. Þá hafa engar upplýsingar borist um slys á fólki.

Aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð á svæðinu. Tekin hefur verið ákvörðun um að rýma hluta af svæði svæði C á Seyðisfirði. Rýma þarf eða vara íbúa við að hafast ekki við fjallsmegin í húsum á C-svæði undir Botnum frá Dagmálalæk að Búðará. Einnig B- og C-svæði ofan Gamla Austurvegar, og Austurveg 42, Hafnargata 18b til 38a, ofan götunnar. Sleppa má Botnahlíð 9, 11 og 13. Rauði kross Íslands hefur opnað fjöldahjálparstöð í Herðubreið á Seyðisfirði.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg sendi svo þessa tilkynningu á sjötta tímanum.

Um kl. 14:45 féllu tvö aurflóð á Seyðisfirði – annað lítið en hitt sýnu stærra og náði að byggð. Tjón var óverulegt en einhverjir lausamunir runnu úr görðum. Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi og kallað út björgunarsveitarfólk til að rýma hluta af áhrifasvæði flóðanna, vakta umferð um svæðið og huga að íbúum. Sú vinna er nú í gangi.

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Óskarsson - Aðsend mynd

Sveinn Brynjólfsson á ofanflóðavakt Veðurstofunnar sagði í hádegisfréttum að draga ætti úr úrkomu í nótt en bæta aftur í annað kvöld.  „Það er ekki gott að segja hvar skriðurnar geta komið en það er greinilegt að jarðvegur er orðinn vatnssósa víða og menn þurfa að hafa varann á sér.   

Sveinn segir í samtali við fréttastofu nú síðdegis að von sé á fleiri skriðum og ekki sé hægt að útiloka að fleiri falli. Þess vegna hafi verið gripið til rýminga.  Hann segir skriðuna sem féll í bænum ekki hafa verið mjög stóra en hún hafi þó verið það stór að hún féll niður á láglendi.

 

Haukur Óskarsson sem rekur veitingahúsið Skaftfell bistro á Seyðisfirði segir að aurskriðan hafi fallið niður eftir læknum sem rennur fram hjá veitingahúsinu í miðjum bænum, yfir bílaplanið á bensínstöðinni hinumegin við götuna. Haukur segist ekki geta ekki opnað dyrnar því það er svo mikill aur og drulla sem hefur safnast fyrir framan húsið.

Hann þurfti þess vegna að fara út um gluggann til þess að taka meðfylgjandi myndir. Hann segir að ekki séu miklar skemmdir inni, enn sem komið er. Það getur hins vegar breyst. Drulluvatn var farið að leka inn á gólf í húsinu þegar fréttastofa ræddi við Hauk.

Mynd með færslu
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV