Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hressandi höggmyndalist á Gerðarsafni

Mynd: - / Gerðarsafn

Hressandi höggmyndalist á Gerðarsafni

15.12.2020 - 14:04

Höfundar

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fjallar um tvær nýjar einkasýningar sem hafa verið opnaðar í sýningaröðinni Skúlptúr/Skúlptúr í Gerðarsafni, þar sem leikgleði og tilraunastarfsemi eru í fyrirrúmi.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Árið 2015 hóf Gerðarsafn sýningaröð undir yfirskriftinni Skúlptúr/Skúlptúr. Síðan þá hefur ungum samtímalistamönnum verið boðið að sýna verk sín undir hatti sýningaraðarinnar, en markmið hennar er að skoða skúlptúrinn í samtímanum og þróun þrívíðrar myndlistar hér á landi, ekki einungis sem mikilvægan hluta listasögunnar heldur einnig sem lifandi sjónrænt tungumál samtímalistarinnar. Sýningaröðin heiðrar Gerði Helgadóttur (1928-1975) og framlag hennar til íslenskrar höggmyndalistar, en um leið og Gerðarsafn varðveitir um 1400 verk þessarar merku listakonu leitast það við að tengja arfleifð hennar við skúlptúrlistina í samtímanum hverju sinni, meðal annars með því að standa fyrir sýningarröð sem þessari. Titillinn Skúlptúr/Skúlptúr vísar til sýningarinnar Skúlptúr / skúlptúr / skúlptúr, sem haldin var á Kjarvalsstöðum árið 1994 og var opnuð sama ár og Gerðarsafn í Kópavogi var opnað almenningi.

Að þessu sinni fer Skúlptúr/Skúlptúr fram í fjórða sinn, nú með einkasýningum þeirra Ólafar Helgu Helgadóttur og Magnúsar Helgasonar. Báðar sýningar einkennast af leikgleði og tilraunum með efni og aðferðir, en þau Ólöf og Magnús nálgast sköpunina með því að setja hversdagslega hluti í óvænt samhengi, þar sem leikið er með efni, form og virkni. Þótt sýningarnar tvær séu ólíkar bæði að inntaki og áferð, má segja að það sem sameini þær sé eiginleikinn til að fá áhorfandann til að slaka á rökhugsuninni og njóta þess sem fyrir augu ber. Og mikið fannst mér hressandi að gera akkúrat það, ekki síst í grámanum og fábreytninni sem einkennir samfélagsstemmninguna um þessar mundir.

Segulmögnuð verk Magnúsar

Sýning Magnúsar, Shit hvað allt er gott, er eins konar vísindasýning, þar sem uppfinningasemi, tilraunir og gáski eru allsráðandi. Magnús vinnur með hversdagslega hluti sem hann raðar upp í nýjar heildir og bindur saman við eðlisfræðileg fyrirbæri, eins og miðflóttaafl, þyngdarkraft og segulmagn. Þannig skapar hann glettilega skúlptúra og gefur þeim sterkt aðdráttarafl, afl sem virkar samtímis á efnið og andann. Á sýningunni má t.d. sjá pulsu- og hamborgarabrauð sem hringsnúast í sífellu um sjálf sig eins og plánetur, þessi ómerkilegustu brauð bakarastigveldisins, sem eru hér upphafin á svífandi stalli; svört óveðurský sem fljóta stefnulaust í litlum sundlaugum, segulvökva innan í lýsisflöskum í eltingarleik við segulstál, og tilviljanakennda gula garðkönnu úti á miðju gólfi. Á veggjum má finna tvívíð verk úr fundnu efni, eins og parketplötum og gluggagleri sem málað hefur verið á, sem mynda skemmtilega umgjörð utan um skúlptúrana á gólfinu. Titlar verkanna eru annað hvort algjörlega gegnsæir, eins og „Stormur í kókglasi“, þar sem kók snýst í spíral í glasi fyrir tilstuðlan rafmagns, eða gjörsamlega óskiljanlegir, eins og „Baldur í Kópavogi“, sem á við um einn járnskúlptúrinn á vegg. En það gerir ekkert til þótt maður skilji ekki alveg, því hér er fyrst og fremst verið að höfða til skynjunarinnar og líkamlegrar upplifunar. Maður leyfir bara verkunum að hitta sig í hjartastað og lætur hrífast með af dúlúðlegum kröftum efnisheimsins og því undraverða gangverki sem hann inniheldur.   

Sýning Magnúsar rúmast afar vel í sýningarsalnum. Verkin eru í réttu magni og hlutfalli við rýmið, og þau daðra létt við arkitektúrinn með því að eiga í fyrirferðarlitlu en áhugaverðu samtali við rýmið, ýmist með löngum eða stuttum litríkum línum sem málaðar hafa verið beint á veggi og gólf. Maður fær tilfinningu fyrir spuna, að hér hafi verið teknar ákvarðanir eftir þörfum en ekki fyrirframgefnu sýningarplani. Þessi innrömmun skapar ekki einungis jafnvægi milli verkanna sjálfra, heldur einnig milli verkanna og rýmisins. Á sama tíma ríkir spenna í loftinu, en segja má að sýningin öll hangi í raun á bláþræði. Það má ekki mikið út af bregða til að verkin hreinlega falli í gólfið eða hlutir sogist inn á rangt áhrifasvið. Og þá getur auðveldlega allt farið í klessu, sem er auðvitað spennandi út af fyrir sig.

Kynlegir kvistir Ólafar

Sýning Ólafar, Hrist ryk á steini, hefur yfir sér dálítið annað yfirbragð þótt hún vinni einnig með fundið efni og óvænt samhengi hlutanna. Rétt eins og Magnús höfðar Ólöf fremur til skynjunar og flæðis en rökhugsunar, þótt ég sjálf sé reyndar ekki alltaf sannfærð um mörkin þarna á milli, því annað þarf ekki endilega að útiloka hitt. Kannski ekki eins mikill leikur eða gáski og í verkum Magnúsar, en hér liggur eitthvað undir sem erfitt er að festa fingur á, einhvers konar hráleiki og hrif um að hér sé eitthvað kynlegt eða annarlegt á seyði. Efniskennd, áferð og jafnvel eitthvað skuggalegt einkenna sýningu Ólafar, sem samanstendur af aðeins þremur misstórum skúltpúrum. Ólöf nýtir ekki eingöngu fundið efni, heldur endurnýtir hún verk eða hluta úr eigin verkum sem hún hefur sýnt áður og gefur þeim þannig nýtt samhengi. Myndband af þvottavélarsnúningi er varpað á tau á lausum ramma, flækja af teiknipappírsrúllu er sett inn í plasthólka sem hringast um sjálfa sig eins og snákur sem bítur í eigin hala, og vídjó af plötuspilara spilar plötu úr pappír sem snýst endalaust í lúppu er sýnt á skjá. Þetta eru verk sem öll vinna með hringhreyfinguna og endaleysuna á einhvern hátt. Árifaríkasta verkið er án efa risastór færanlegur milliveggur, sem hefur verið pakkað inn í eldrauðar og efnismiklar gardínur af æskuheimili Ólafar. Verkið virkjar allt rýmið, dregur í sig birtuna og umbreytir henni í rauðlætan blæ. Fyrir vikið er eins og massívur veggurinn svífi um í rýminu. Þetta verk ber með sér einhvern annarlegan dulúðleika, mann langar að skyggnast bak við tjöldin í leit að kynlegum kvistum, og raunar gæti það allt eins verið leikmynd í kvikmynd eftir David Lynch.

Það loftar vel um verkin þrjú, ef til vill of vel. Þau fylla ekki nægilega vel út í stóran salinn, þannig að eftir situr tilfinning um einhvers konar tómleika. Maður spyr sig hvort það sé beinlínis ásetningur listamannsins að kalla fram þessa tilfinningu, en í raun er erfitt að gera sér grein fyrir hver ásetningur Ólafar er, því hún vill ekki gefa of mikið uppi eða leiða áhorfandann áfram með neinum hætti. Litlar upplýsingar eru gefnar um hvert verk, og aðeins eitt verkanna hefur titil. Þar að auki hefur sýningartitillinn sjálfur, Hrist ryk á steini, enga augljósa tengingu sýninga sjálfa eða einstök verk hennar, nokkuð sem skilur mann eftir í lausu lofti. Þannig er erfitt að sjá tengingu milli verkanna á sýningunni, þau koma manni jafnvel fyrir sjónir eins og tilviljanir, sem er auðvitað nálgun í sjálfu sér. Tilfinning um að þarna sé eitthvað óklárað vaknar, en Ólöf segist sjálf kjósa að dvelja ekki of lengi við smáatriði eða ganga of langt þegar kemur að útfærslu verka.

Skoðun á skúlptúrlistinni

Eins og kom fram hér í upphafi er markmið Gerðarsafns með sýningaröðinni Skúlptúr/Skúlptúr að skoða stöðu skúlptúrsins og þróun hans í listasögunni hér á landi. Með þessu er safnið að taka sér stöðu sem skrásetjara og rannsakanda á þessu sviði, um leið og það býr til lifandi samtal milli arfleifðar Gerðar og samtímalistarinnar. Með hverri nýrri sýningu sem opnar undir hatti sýningarraðarinnar bætast við ný lög ofan á það sem fyrir er. Þannig verður smám saman til mikilvægur þekkingargrunnur fyrir íslenska listasögu, þar sem völdum listamönnum er boðið að sýna sitt framlag til skúlptúrlistarinnar og gefa þannig mikilvægar vísbendingu um hvert hún er að þróast í samhengi við það sem er að gerast í öðrum listasöfnum hér á landi hverju sinni sem og á alþjóðlega sviðinu. Hins vegar má segja að þessi skoðun, sem safnið vill standa fyrir, gæti rist dýpra en raunin er, með því að veita frekara listsögulegt, samfélagslegt eða fagurfræðilegt samhengi með hverri sýningu sem opnar innan raðarinnar. Það verður því spennandi að sjá hvernig Gerðarsafn hefur haldið utan þróunina í skúlptúrlistinni sem það sjálft hefur skrásett með þeim sýningarboga sem stöðugt vex innan sýningaraðarinnar, og hvernig því tekst að vinna úr þeim mikla efniviði sem það hefur safnað undanfarin ár með sínu metnaðarfulla sýningarstarfi undir hatti skúlptúrlistarinnar.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Frásagnarvald safna

Pistlar

Safn án veggja   

Pistlar

Hverfulir þekkingarþræðir á þjóðlistasafninu

Pistlar

Brýn sýning um norræna normalíseringu hins kynjaða