Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hefur aldrei séð veginn í þessu ástandi

15.12.2020 - 17:20
Mynd: RÚV / RÚV
Vegagerðin hvetur fólk til þess að fresta ferðalögum eftir þjóðvegum á Norðurlandi vestra og Vesturlandi vegna tjörublæðingar úr malbiki á vegum. Vegfarendur hafa verið í stórhættu þegar tjörukögglar safnast á dekk og í bretti bíla sem svo spýtast jafnvel á aðra vegfarendur.

Aldrei séð veginn í þessu ástandi

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir að lögreglan hafi fengið töluvert af tilkynningum um tjón. Hann á von á að þeim eigi eftir að fjölga í dag og næstu daga.

„Við gerðum okkkur kannski ekki grein fyrir því strax hvað þetta var skelfilegt. Fljótlega fóru lögreglunni að berast tilkynningar um ástandið,“ segir Stefán Vagn.

„Það reyndist vera rétt að vegurinn var með allra versta móti. Ég get sagt að ég fór þarna um í gær. Ég keyri náttúrulega mikið og ég hef aldrei séð veginn í þessu ástandi sem hann var. Í raun og veru var stórhætta þarna sem hafði skapast í þessu ástandi.“

Hann segir að tjörukögglar hafi myndast á veginum sem festist á dekkjum, í hjólaskálum og felgum þannig að akstursmöguleikar bílsins fari út í veður og vind, eins og hann orðar það. Að auki kastist kögglar á aðra bíla. Lögreglan verður ekki með sérstakt eftirlit en fylgist með ástandinu.

Fólk beðið um að fresta för

Leiðin sem Vegagerðin hvetur fólk til þess að ferðast ekki um er á þjóðvegi 1 milli Borgarness og Akureyrar. Fólk er beðið um að fresta för um að minnsta kosti sólarhring. Á meðan fylgist vegagerðin með framvindunni. Þeir sem eiga ekki kost á að fresta för eru hvattir til þess að fara varlega eins og alltaf og aka eftir aðstæðum.

Í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar segir að flutningafyrirtæki og önnur þungaumferð hafi verið beðin um að lækka loftþrýsting í dekkjum til að minnka álag, minnka farm og létta þannig ökutækið og dreifa álagi á vegakerfið eins og kostur er, með því að dreifa ferðum fyrir daginn.