Hanna Whitehead skreytir jólatréð í Heiðmörk

Mynd: Menningin / RÚV

Hanna Whitehead skreytir jólatréð í Heiðmörk

15.12.2020 - 09:52

Höfundar

Form sem vekja gleði eru aðalsmerki Hönnu Whitehead sem hannar muni, textíl og skreytingar jólatrés Heiðmerkurjólamarkaðarins í ár.

Hanna setti nýverið á markað línu leirmuna, sem hún kallar nytja- og ónytjamuni. „Þetta eru í raun og veru tvenns konar munir. Annars vegar handbyggðir og hins vegar munir sem eru steyptir í mót. Svo handglerja ég þá alla með pensli þannig að þess vegna eru þeir svona svolítið doppóttir og litríkir og eitthvað af penslaförum í þeim. Þetta hefur kannski ekki eitthvað gríðarlegt notagildi þannig að hægt sé að setja gúllas inn í þetta eða eitthvað svoleiðis, þetta eru mest skrautmunir fyrir heimilið sem gleðja augað,“ segir hún. 

Tilgangurinn að gleðja

Hanna Dís útskrifaðist frá Hönnunarakademíunni í Eindhoven í Hollandi árið 2011. Síðan þá hefur hún fengist við fjölbreytt verkefni svo sem húsgagnahönnun, skúlptúr og textíl og hefur meðal annars hannað fyrir fyrirtækin Ferm Living og Åben. Hún býr og starfar á Hornafirði þar sem hún rekur stúdíó.

Óvenjuleg form og litagleði einkennir verk hennar öðru fremur. „Ég er frekar svona dekoratífur hönnuður myndi ég segja. Ég hugsa alltaf kannski að tilgangurinn sé að vekja gleði hjá fólki, einhvern veginn að gleðja það,“ segir hún. 

Alíslensk íbúð

Hanna var nýverið valin ásamt hópi hönnuða til að vinna vörur fyrir safnbúð Ásmundarsafns sem kynntar verða í byrjun næsta árs. Þá hafði hún hönd í bagga með samvinnuverkefni 66°Norður, Rammagerðar og Auðar Gnáar innanhússhönnuðar. „Ég hannaði tæplega 8 fermetra mottu fyrir íbúð sem verður eingöngu með íslenskri hönnun, alveg frábærlega skemmtilegt og áhugavert verkefni,“ segir Hanna Dís. 

Ljær trénu töfra

Hún kom í fleiri erindagjörðum til borgarinnar en hún hannar skreytingar jólatrés jólamarkaðarins í Heiðmörk í ár. „Það hefur verið hefð síðastliðin ár á jólamarkaðnum að fá listamann eða hönnuð til að skreyta tréð og þetta hafa allt verið rosalega áhugaverðir og framúrskarandi listamenn,“ segir Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir hönnuður og viðburðastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur. „Ég var virkilega glöð þegar Hanna Dís var tilbúin til að vera hönnuður ársins í ár og ljá trénu einhverja töfra eins og henni er einni lagið. Hanna Dís finnst mér vera frábær hönnuður og einn okkar aðalhönnuður í dag. Hennar form og litafræði eru líka mjög afgerandi og litrík þannig að mér fannst það vera mjög við hæfi að fá hana í þetta verkefni,“ bætir Guðfinna við. 

Að sögn Hönnu var nýtingarstefna í fyrirrúmi við hönnun skrautsins. „Ég vann fyrir þau skraut fyrir jólatréð sem er unnið úr afgangsefnivið af vinnustofunni minni. Ég tími aldrei að henda neinu, það er svo langt í búðina í sveitinni, þannig að ég hef verið að safna þessu upp og er núna búin að búa til eitthvað svona jólaskraut úr bómull, ull,melgresi, viðarafgöngum og bara svona hinu og þessu. Prófa að endurnýta og gera eitthvað nýtt.“

Verk Hönnu má kynna sér nánar hér og jólamarkaðinn í Heiðmörk hér

 

Tengdar fréttir

Neytendamál

Hver að verða síðastur að panta fyrir jólin

Innlent

Jólaálfar bjarga pakkasöfnuninni

Popptónlist

Jóhanna Guðrún - Jól með Jóhönnu

Menningarefni

Yfirmenn heimtuðu jólagjafir frá starfsfólki