Eins og staðan er núna hjá íslenska liðinu má það hefja æfingar 2. janúar. Þá væri hægt að æfa einu sinni, svo tvisvar 3. janúar en eftir það heldur liðið til Portúgal til að leika við þarlenda í undankeppni EM 2022.
„Það er með ólíkindum að það sé settir svona erfiðir leikir fyrir HM en þetta eru auðvitað ekki einfaldir leikir við Portúgal,“ sagði Guðmundur á fjarfundi með blaðamönnum í dag þar sem hópurinn var kynntur.
Guðmundur hefur sérstakar áhyggjur af ferðalaginu frá Portúgal og aftur til Íslands, þar sem sömu lið mætast aftur í undankeppni EM 2022 þann 10. janúar.
Við höfum sérstakar áhyggjur af ferðalagi okkar aftur til baka til Íslands frá Portúgal þann 5. janúar. Það ferðalag gæti reynst okkur mjög erfitt að komast aftur til Íslands. Möguleiki er á því að við þyrftum að gista og þar með erum við búnir að tapa mjög mikilvægum degi í undirbúningi, bæði fyrir seinni leikinn við Portúgal og samhliða fyrir HM,“ sagði Guðmundur.
Vonast til að fá undanþágu
Í ljósi þessa stífa plans í byrjun janúar vonast Guðmundur til að fá undanþágu sóttvarnayfirvalda til að hefja æfingar milli jóla og nýárs.
„Skrifstofa HSÍ hefur leitað leiða til að fá undanþágu til að æfa á milli hátíðanna. Það væri nánast ómetanlegt fyrir okkur. Við gerum það besta úr stöðunni. Von mín er að við fáum undanþágu til að æfa á milli jóla og nýárs en samt þannig að leikmenn fái að njóta samvista með fjölskyldum sínum um áramótin. Maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér og það hefur maður lært í þessu Covid. Maður lætur ekkert koma sé á óvart lengur,“ sagði Guðmundur.
Valið á liðinu ber merki Covid-19 tíma
21 leikmaður var valinn í liðið fyrir þessi tvö verkefni og Guðmundur reiknar með að 20 þeirra fari með á HM. Það er fjórum fleiri en venjulega. Aðeins má skrá 16 til leiks í upphafi móts, hinir verða til taks ef gera þarf breytingar.
Þá reyndi Guðmundur að velja sem flesta leikmenn sem leyst geti fleiri en eina stöðu í liðinu, komi upp meiðsli.
„Það var gríðarleg púsluspil að koma saman liðinu. Margir þættir spila þar inn í. Til að mynda hafa handknattleiksmenn á Íslandi ekki haft kost á því að æfa í langan tíma. Að einhverju leyti hefur það áhrif á valið. Undirbúningurinn er stuttur og erfitt gæti orðið að gera breytingar á hópnum á HM út af fjarlægð við Egyptaland. Við eigum von á að fara með 20 leikmenn til Egyptalands. Við vildum hafa eins mikinn fjölbreytileika og hægt er út af óvissunni tengdri veirunni,“ sagði Guðmundur.
„Sérstaklega ánægjulegt að ræða ungu mennina“
Guðmundur tiltók sérstaklega ungu leikmenn liðsins á fundi morgunsins. Margir þeirra hafa tekið stór skref á sínum ferli á liðnu ári, fært sig í sterkari lið og deildir og staðið undir væntingum á nýjum stöðum.
„Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig að ræða þetta. Það má segja að ákveðin bylting hafi orðið frá árinu 2018 þegar ég tók við. Þá stóðum við frammi fyrir því að byggja upp nýtt lið. Við gerðum það og nú eru margir þeirra að fara á sitt þriðja stórmót.“
„Þeir hafa líka tekið skref inn í atvinnumennsku og bætt sig stórkostlega þar. Þess vegna er eiginlega hægt að tala um byltingu því árið 2018 voru fjölmargir leikmenn hér heima. Alltaf fara fleiri og fleiri erlendis sem ná að bæta sig og styrkja sig. Auðvitað er það ánægjuleg þróun fyrir mig sem landsliðsþjálfara. Það eru ekki mörg landslið sem hafa farið svo markvisst í endurnýjun eins og íslenska landsliðið.“