Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fasteignasala á höfuðborgarsvæðinu í hæstu hæðum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fjöldi kaupsamninga vegna fasteignakaupa hefur aldrei verið meiri en í september og var fjöldinni í október og nóvember sömuleiðis mjög mikill. Enn er mikið líf á fasteignamarkaði þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn og dýrar eignir seljast á yfirverði sem aldrei fyrr.

Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Alls voru 1035 eignir á höfuðborgarsvæðinu teknar af sölulista í september, 977 í október og 986 í nóvember. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var nóvember metmánuður, þá voru 250 eignir teknar af sölulista, 240 í október og 223 í september og því ljóst að þar er sömuleiðis nóg að gera.

Sömu kaupgleði er ekki að gæta á landsbyggðinni og dróst fjöldi eigna sem teknar voru af sölulista þar saman úr 300 í október í 244 í nóvember. Fram kemur í skýrslunni að ástæður þessa kunni að vera minna framboð húsnæðis á landsbyggðinni og að þar hefur ekki verið jafn mikil uppbygging á íbúðum og á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni.

Mynd með færslu
 Mynd: HMS

Íbúðum til sölu fækkað verulega

Áhrifa þeirrar miklu eftirspurnar sem verið hefur eftir húsnæði að undanförnu á höfuðborgarsvæðinu er tekið að gæta á framboð á eignum til sölu. Síðastliðin ár hefur meðalfjöldi eigna til sölu verið milli 1600 til 2200 og náði hann slíkum hæðum við lok fyrra samkomubanns í vor. Nú er hann um 1200.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins náði framboðið hámarki í maí, þá voru til sölu um 800 eignir en hefur síðan þá fækkað í tæplega 600. Á landsbyggðinni hefur framboðið dregist minna saman og fjöldinn farið úr tæplega 1000 niður í rúmlega 800.

Mynd með færslu
 Mynd: HMS
Mynd með færslu
 Mynd: HMS

Töluverðar verðhækkanir það sem af er ári

Aukin eftirspurn hefur ekki einungis áhrif á framboð eigna. Verðhækkanir á fasteignamarkaði það sem af er ári hafa verið umtalsverðar og mikil samkeppni er um eignir. Fasteignaverð á öllu landinu hækkað um 5,1% á milli nóvember í fyrra og nóvember á þessu ári. Verðið hefur hækkað mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem 12 mánaða hækkunin er 9% í nóvember og mikil viðskipti voru á þar í mánuðinum.

Sé vísitala söluverðs skoðuð þá hafa orðið snarpar hækkanir að undanförnu og hækkaði hún um 5,8% á höfuðborgarsvæðinu á 12 mánaða tímabil miðað við október og 4,2% í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Á landsbyggðinni lækkaði vísitalan, um 1,8% miðað við október í fyrra.

Mynd með færslu
 Mynd: HMS

Búast má við að verð haldi áfram að hækka

Samkvæmt skoðunarkönnun HMS og Zenter sem framkvæmd var í nóvember gerði meirihluti aðspurðra ráð fyrir áframhaldandi hækkun fasteignaverðs eða um 70 prósent. Einungis sex prósent gerðu ráð fyrir lækkun. Meðal þeirra sem búa í foreldrahúsum sagðist 87% aðspurðra búast við verðhækkunum en 69% þeirra sem búa í leiguhúsnæði.

Samkvæmt könnuninni sjá færri fram á að kaupa sér fasteign á næstu mánuðum en í tveimur könnunum þar á undan. Í könnunum í apríl og júlí var óvanalega mikil hækkun í hópi þeirra sem sáu fram á fasteignakaup á næsta hálfa ári. Í nýjustu könnuninni í nóvember er hlutfallið aftur á niðurleið.

Í skýrslunni segir að hugsanleg skýring kunni að vera að sá hópur sem er á leigumarkaði og hefur tök á því að kaupa sér eign hafi nú þegar keypt sér fasteign í ljósi hagstæðari aðstæðna á fasteignamarkaði að undanförnu. Einnig getur skortur á framboði og verðhækkanir haft áhrif þar sem færri sjái sér fært að kaupa nú en í fyrri könnunum.

Meðfylgjandi eru myndir af húsum sem byggð hafa verið fyrir stofnframlög og þar sem fólk er þegar flutt inn í leiguíbúðirnar. Um er að ræða fjölbýlishús við Móaveg og Urðarbrunn í Reykjavík og Asparskóga á Akranesi.
 Mynd: Aðsend mynd - Íbúðalánasjóður

Eignir seljast yfir ásettu verði sem aldrei fyrr

Eignum sem seljast yfir ásettu verði hefur fjölgað mikið og er samkvæmt skýrslunni í „hæstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir.“ Hlutfall eigna sem selst yfir ásettu verði hefur hækkað úr 11% í júní og í 21% í október miðað við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal.

Hlutfall eigna sem seljast á ásettu verði hefur sömuleiðis hækkað og farið úr 16% í 23% á sama tímabili. Eignir sem seljast einkum á yfirverði eru í verðflokknum 75 milljónir og yfir eða 27%. Eignir í verðflokknum undir 35 milljónum seljast mun sjaldnar á yfirverði eða í 11 prósentum tilfella. Hlutfall eigna á verðbilinu þar á milli, 35-75 milljónir, sem seljast á yfirverði er í kringum 20%.

Á landsbyggðinni er annað uppi á teningnum en þar hafa eignir ekki selst eins mikið á yfirverði líkt og á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallið fyrir bæði yfirverð og ásett verð hefur hækkað aðeins í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en annars staðar á landsbyggðinni má greina lækkun í báðum flokkum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Eignir seljast mun hraðar

Meðalsölutíma eigna hefur minnkað mikið síðan í vor sem er í samræmi við að framboðið sé að dragast saman, verðið að hækka og fleiri eignir seljast á yfirverði. Samkeppnin um eignir er mikil sem styttir sölutímann. Sölutími nýrra eigna á höfuðborgarsvæðinu fór mest upp í 79 daga að meðaltali í samkomubanninu í vor, er nú 61 dagur. Fyrir aðrar eignir þá hefur sölutíminn styst úr 49 dögum niður í 43 og hefur ekki mælst jafn stuttur síðan 2013 en gögn ná ekki lengra. Annars staðar á landinu hefur sölutími nýrra eigna farið úr 122 dögum, þegar hann var sem lengstur í vor, niður í 86 daga nú. Sölutími annarra eigna hefur styst úr 87 dögum niður í 76.