Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn herða Danir sóttvarnaaðgerðir

epa08340245 An official stands next to a hand hygiene station as Scandinavians who were stranded in Peru due to COVID-19 arrive at the Copenhagen Airport, in Copenhagen, Denmark, 03 April 2020. On board the SAS flight from Lima, there were approximately 290 passengers, of which 200 are Scandinavian nationals who have been stranded in Peru due to the coronavirus pandemic, since the authorities on 16 March banned all flights to and from Europe for 30 days. The SAS aircraft flew the longest flight ever in the company's history.  EPA-EFE/CLAUS BECH DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - Scanpix Ritzau
Danska ríkisstjórnin ákvað í dag að harðar sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins, sem gilt hafa síðan á föstudaginn í hluta landsins, muni nú gilda í öllu landinu. „Við stöndum frammi fyrir virkilega alvarlegu ástandi,“ segir Benny Engelbrecht samgönguráðherra Danmerkur. Þetta er í þriðja skiptið á rúmri viku sem sóttvarnaðgerðir eru hertar í landinu.

„Kórónuveiran hefur náð allt of miklum tökum á Danmörku. Smittölurnar eru of háar og þeim fjölgar sem leggjast inn á sjúkrahús. Þess vegna verðum við að láta aðgerðirnar gilda fyrir allt landið, “ skrifar Engelbrecht í færslu á facebook-síðu sinni.

Þær eiga að taka gildi klukkan 16 á morgun og verða í gildi til 3. janúar.

Smitum heldur áfram að fjölga í Danmörku, hátt í 3.000 ný tilfelli hafa greinst þar undanfarinn sólarhring samkvæmt upplýsingum á vef Dönsku sóttvarnastofnunarinnar og síðan í gær hafa verið skráð þar 11 ný dauðsföll af völdum COVID-19.

Á mánudaginn í síðustu viku kynnti danska ríkisstjórnin hertar sóttvarnaaðgerðir í því skyni að stemma stigu við faraldrinum Þá náðu þær til 31 sveitarfélags. Á föstudaginn bættust svo 38 sveitarfélög við og frá og með morgundeginum ná þær til allra þeirra 98 sveitarfélaga sem eru í landinu.

Í þeim felst meðal annars að veitingastaðir og barir eru lokaðir, skólabörn sem eru í 5. bekk og eldri eiga að vera heima og allir nemendur framhalds- og háskólastigi. Íþróttastarf innandyra er ekki leyfilegt og allri menningarstarfsemi hefur verið gert skylt að loka.

Þá vinna allir þeir opinberu starfsmenn, sem það geta, heiman frá sér og fólki er ráðlagt frá að fara á milli sveitarfélaga.

Langflest ný smit eru í Kaupmannahöfn, 786 á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu vikuna. Allan Randrup Thompsen, prófessor í veirufræði við Kaupmannahafnarháskóla, leggur til að Sjáland verði einangrað frá öðrum hlutum Danmerkur til að reyna að stöðva hraða útbreiðslu kórónuveirusmita. Hann segir að einfaldast yrði að loka Stórabeltisbrúnni.

Lars Weiss, borgarstjóri Kaupmannahafnar, ráðleggur borgarbúum að halda sig sem mest heima við. „Aflýsið öllum viðburðum, verið heim, vinnið heiman frá ef þið getið og einangrið ykkur eins mikið og mögulegt er,“ sagði Sisse Marie Welling, sviðsstjóri heilbrigðissviðs borgarinnar í samtali við danska ríkissjónvarpið, DR, í dag.