Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Ég gæti rotað mann með þessu“

15.12.2020 - 19:30
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Stórhætta hefur skapast á vegum á Norður- og Vesturlandi vegna bikblæðinga síðustu daga. Yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra segir að tilkynningar um stórtjón hafi borist. Flutningabílstjórar segja farir sínar ekki sléttar.

Í hitabreytingunum sem orðið hafa á síðustu dögum hafa myndast bikblæðingar í vegklæðingum á Norður- og Vesturlandi. Það sem þá gerist er að umferðin dregur bikið upp úr klæðingunni og það hleðst svo utan á bíla.

Bílstjórar sem hafa ekið um svæðið að undanförnu hafa ekki farið varhluta af þessu.

„Hér sjáum við þar sem tjaran hefur lamið brettin af og hérna safnast hún bara fyrir. Og þetta eru tugir kílóa af tjöru,“ segir Snorri Hólm Sigurðsson, flutningabílstjóri, um leið og hann sýnir hvernig bíllinn hans er útleikinn.

Brotið í mél

Fjölmargir flutningabílar hafa orðið fyrir tjóni á síðustu dögum, og ljóst að tjónið hleypur á milljónum. Ef bótaskylda er fyrir hendi bætir Vegagerðin það tjón.

„Brettin á honum eru öll brotin, grindin, bremsur, allar felgur, þetta er allt stappfullt af malbiki. Svona er þetta, allt gjörsamlega brotið í mél,“ segir Ívar Örn Smárason um leið og hann sýnir sinn bíl.

Hefurðu lent í þessu áður?

„Aldrei svona slæmu. Það sem braut hjá mér framstuðarann var þessi hérna klumpur. Ég gæti rotað mann með þessu. Þetta var hérna inni í framstuðaranum á honum. Krækir sig í dekkið og brýtur stuðarann,“ segir Ívar. 

Lögreglan á Norðurlandi vestra sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem ökumenn eru varaðir við ástandinu. 

„Ég get sagt að ég fór þarna um í gær og ég keyri þarna mikið og ég hef aldrei séð veginn í þessu ástandi sem hann var og í raun og veru hafði stórhætta skapast þarna,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn.

Hafið þið fengið einhverjar tilkynningar um tjón eða slys?

„Já. Og við höfum fengið tilkynningar um smávægileg tjón og allt upp í stórtjón á bílum,“ segir Stefán Vagn.