Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

COVID kreppa bitnar mest á láglaunafólki

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Láglaunanfólk tekur versta skellinn í kreppunni sem nú gengur yfir og grípa verður til sértækra aðgerða til að koma í veg fyrir að ójöfnuður aukist, segir framkvæmdastjóri ASÍ.

Kófið og hrunið: lærdómur og leiðin fram á við er yfirskrift vefráðstefnu sem sérfræðingahópur verkalýðshreyfingarinnar efndi til rétt fyrir hádegi þar sem hann birti nýja greiningu á efnahagslegum samanburði efnahagskreppunnar fyrir rúmum áratug og COVID kreppunnar nú.

„Það teiknast upp sú mynd að hrunið var efri millistéttarkreppa að mestu leyti, en kófið, kreppan vegna COVID-19 hittir láglaunafólk verst fyrir,“ segir Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ og formaður sérfræðingahópsins.

Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur BHM kynnti skýrsluna þar sem fram kemur að kreppan nú sé fádæmalaus í 150 ára hagsögu Íslands og sú versta í Evrópu í áratugi. Kreppan nú og sú síðasta koma við mismunandi greinar atvinnulífsins.

„Kreppan kemur verst við þjónustugreinar, greinar tengdar ferðaþjónustu og svo framvegis á meðan hrunið kom auðvitað mjög illa við fjármálakerfið og þessar greinar eru einkennandi fyrir lægri launastiga í samfélaginu. Og við skoðum í rauninni samdrátt í launatekjum innan þessara greina og það eru þær sem taka versta höggið. Þetta auðvitað endurspeglast í því sem hefur verið bent á í fyrri greiningum sérfræðingahópsins og líka ASÍ, að láglaunafólk er að taka versta skellinn og sérstaklega viðkvæmir hópar eins og útlendingar á vinnumarkaði og ungt fólk,“ segir Halla.

Í kynningunni í morgun var einnig fjallað um þær áskoranir sem fram undan eru eins og til dæmis að leita verði allra leiða til að auka fjölbreytni í útflutningsatvinnugreinum. Halla segir að nánar verði fjallað um það í skýrslu sem kynnt verður eftir áramót.

„En það er alveg ljóst að það þarf sértækar aðgerðir til þess að tryggja að þessi kreppa verði ekki til að auka á ójöfnuð og þar horfum við í atvinnusköpun, atvinnutækifæri, menntatækifæri fyrir atvinnuleitendur og svo framvegis. Afkomuöryggi er lykilatriði núna og þetta eru eiginlega allir alþjóðlegir aðilar sammála um, að tryggja afkomu öryggi fólks. Það er vænlegasta leiðin til þess að koma í veg fyrir að kreppan verði bæði djúp og langvinn.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV