Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

230 ára gömul hefð rofin á gamlárskvöld

Mynd: RÚV / RÚV
Engar áramótabrennur verða á höfuðborgarsvæðinu og óvíst er með flugeldasýningar björgunarsveita. Ekki þykir forsvaranlegt að hvetja til mannsöfnuðar við brennur. Þar með er rofin aldagömul hefð. Brennur á gamlárskvöld hafa tíðkast hér á landi í um tvö hundruð og þrjátíu ár. Fyrsta áramótabrennan var í Reykjavík.

Þetta kemur fram á Vísindavefnum. 

Tíu brennur voru á gamlárskvöld í fyrra í Reykjavík. En í ár verður allt annað uppi á teningnum.  

„Það er eins og búið er að vera að tilkynna öllum að þá verða þessar hátíðir öðru vísi en áður og meðal annars með brennurnar. Það verða engar brennur í ár. Það var tekin ákvörðun um það af hálfu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.

Bannað er að vera með viðburði sem stuðla að hópamyndun. 

„Núna erum við með tíu manna fjöldatakmörkun. Þannig að við sjáum ekki að brennur rýmist innan þeirra takmarkana,“ segir Jón Viðar.

Þá er til skoðunar hvort leyfa eigi flugeldasýningar björgunarsveita.

Víða hefur áramótabrennum verið aflýst. Engar brennur verða í Fjarðabyggð og Múlaþingi. Heldur ekki á Akureyri og í Norðurþingi. Þá eru engar áramótabrennur fyrirhugaðar í Borgarbyggð. Mörg sveitarfélög eru að skoða málið. 

Ekki hafa verið áramótabrennur í Reykjanesbæ síðustu ár en hætt hefur verið við þrettándabrennu þar, en hvað með höfuðborgarsvæðið? 

„Það er akkúrat mjög góð spurning. Við eigum eftir að taka ákvörðun um það,“ segir Jón Viðar.