Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Yfir 330 drengja enn saknað eftir árás á skóla

14.12.2020 - 02:10
Vísinda- og tækniskóli ríkisins í Kankara í Nígeríu er heimavistarskóli fyrir unglingspilta. Vopnaðir menn réðust þar til atlögu síðla kvölds föstudaginn 11. nóvember 2020 og rændu allt að 400 piltum.
Hluti af heimavistarskólanum; Vísinda- og tækniskóla ríkisins, í Kankara í Katsína-ríki í norðvestanverðri Nígeríu Mynd: AP
Á fjórða hundrað unglingspilta er enn saknað eftir að vopnaðir menn réðust á heimavistarskóla í Nígeríu að kvöldi föstudags og höfðu hundruð nemenda á brott með sér. Árásarmennirnir, sem voru vopnaðir hríðskotarifflum, réðust inn í Vísinda- og tækniskóla ríkisins í bænum Kankara í Katsina-ríki, þar sem á níunda hundrað piltar eru við nám.

Hundruðum þeirra tókst að flýja eða fela sig og öryggisverðir náðu að verja hluta skólans en árásarmönnunum tókst engu að síður að nema fjölda nemenda á brott áður en lögregla kom á vettvang. AP fréttastofan hefur heimildir fyrir því að þeir séu allt að 400 en þýska fréttastofan dpa hefur eftir yfirvöldum að 333 sé enn saknað.

Segja vitað hvar árásarmennirnir og drengirnir eru

Varnarmálaráðherra Nígeríu og yfirhershöfðingi Nígeríuhers hafa báðir sagt að vitað sé hvar mannræningjarnir halda sig, og að drengirnir séu þar í haldi. Meira hefur ekki verið upplýst en árásin minnir um margt á áhlaupið á stúlknaskólann í Chibok í Borno-héraði í Norðaustur-Nígeríu vorið 2014. Þá rændu vígamenn Boko Haram-hryðjuverkasamtakanna 276 stúlkum úr skólanum og enn hefur ekkert spurst til  rúmlega 100 úr þeim hópi.

Enginn hefur lýst ódæðisverki föstudagsins á hendur sér en samkvæmt dpa bendir ýmislegt til þess að þarna hafi glæpaflokkur verið að verki sem hyggist krefjast lausnargjalds, fremur en vígasveitir íslamista eða annarra hryðjuverkasamtaka. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV