Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Útvarp RÚV flutt á Úlfarsfell eftir 90 ár á Vatnsenda

14.12.2020 - 17:07
Langbylgjusendir RÚV á Eiðum
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Útvarpsrásum Ríkisútvarpsins verður framvegis útvarpað frá Úlfarsfelli, eftir að slökkt verður á útvarpssendum á Vatnsenda á næstu dögum í fyrsta sinn í 90 ár. Þar rís íbúðabyggð og útvarpsendarnir víkja fyrir henni.

Hlustendur Rásar 1 og Rásar 2 á höfuðborgarsvæðinu hafa alla tíð heyrt útsendinguna í gegnum mastrið efst á Vatnsendahvarfi. Þaðan hefur verið útvarpað síðan 1930, þegar Ríkisútvarpið fór fyrst í loftið.

Fyrsti sendirinn sem reistur var á Vatnsenda fyrir 90 árum stendur þar enn og er svo stór að hægt er að ganga inn í hann. Í dag eru sendarnir sjálfir tiltölulega smáir í sniðum, þó möstrin rísi enn hátt. Mastrið sem útvarpað verður um á Úlfarsfelli var reist fyrir um ári síðan og er 50 metra hátt.

FM-útsending klassísku tónlistarstöðvarinnar Rondó flytur ekki yfir á Úlfarsfell. FM-útsendingin hefur náðst á höfuðborgarsvæðinu en ákveðið var að færa Rondó alfarið yfir á vefinn. Enn verður hægt að hlusta í öppum og á vefnum.

Ástæða þess að slökkt er á Rondó er tæknilegs eðlis. Það er takmarkaður fjöldi FM-tíðna sem hægt er að senda út frá einum sendistað án þess að skerða gæði útsendingarinnar.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV