Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Útlendingum gengur verr að fá vinnu en Íslendingum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Erlendum ríkisborgurum fjölgaði hér á landi í nóvember. Þá búa ríflega tvö þúsund fleiri útlendingar hér en gerðu fyrir ári. Næstum fjórði hver útlendingur búsettur hér á landi er án vinnu en þegar litið er til allra landsmanna er einn af hverjum átta án vinnu. Útlendingum hér gengur verr að fá vinnu en Íslendingum. 

Rúmlega fimmtíu og eitt þúsund erlendir ríkisborgarar eru búsettir hér á landi, að því er kemur fram í tilkynningu Þjóðskrár. Þá kemur einnig fram að þetta eru rúmlega tvö þúsund fleiri en fyrir ári, þrátt fyrir samdrátt í ferðaþjónustu sem hófst í fyrra og hélt áfram í kórónuveirufaraldrinum.

Frá fyrsta nóvember til fyrsta desember fjölgaði erlendum ríkisborgurum hér um hundruð tuttugu og níu. Ef rýnt er nánar í þessa tölu kemur í ljós að mjög misjafnt er eftir þjóðernum hvort það fækkar í hópi þeirra hér á landi eða fjölgar. Þannig eru um fimmtíu færri Frakkar og Litháar hér en voru í nóvemberbyrjun en fimmtíu fleiri Tékkar.

Almennt er atvinnuleysi á landinu um tólf prósent. Erlendir ríkisborgarar fara þó verr út úr þessu en þeir sem fæddir eru hér á landi. Þannig er atvinnuleysi 24 prósent meðal erlendra ríkisborgara. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að afar erfitt sé að fá vinnu um þessar mundir. Það gangi þó heldur verr hjá erlendum ríkisborgurum en Íslendingum. Sama hafi verið uppi á teningnum eftir bankahrunið.