Glaðningurinn er á formi listamanns- eða manna sem koma heim til viðtakandans og flytja stutt verk, gefanda og þiggjanda að kostnaðarlausu. „Listagjöf er verkefni sem Listahátíð ýtir úr vör í kvöld og fer fram um næstu helgi. Hægt að fara inn á vefsíðuna listagjof.listahatid.is þar sem hægt er að panta listaglaðning fyrir einhvern sem þér er kær,“ segir Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.
Ferlið er einfalt: „Þú bara ferð inn á þessa vefsíðu, kostar ekki neitt, og pantar listagjöf fyrir til dæmis ömmu þína sem þú hefur ekki fengið að knúsa lengi eða fyrir vinkonu sem hefur verið sérstaklega góð við þig. Þú pantar gjöfina og finnur ákveðið tímaslott sem hentar. Á laugardag eða sunnudag kemur svo frábær listamaður eða jafnvel tveir bara að dyraþrepinu og gleður með stuttum listgjörningi, litlum tónleikum eða uppákomu; danssýningu, sirkus, ljóðalestri, það getur verið ýmislegt,“ segir Vigdís.