Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tónleikar, sirkus eða dans heim að dyrum

Mynd: RÚV / RÚV

Tónleikar, sirkus eða dans heim að dyrum

14.12.2020 - 11:53

Höfundar

Listagjafir verða endurvaktar næstu helgi, og þá um allt land. Sem fyrr flytja landsþekktir listamenn gjafirnar og eru þær gefendum að kostnaðarlausu. Opnað verður fyrir pantanir listagjafa á hádegi í dag og þær afhendar dagana 19. og 20. desember.

Glaðningurinn er á formi listamanns- eða manna sem koma heim til viðtakandans og flytja stutt verk, gefanda og þiggjanda að kostnaðarlausu. „Listagjöf er verkefni sem Listahátíð ýtir úr vör í kvöld og fer fram um næstu helgi. Hægt að fara inn á vefsíðuna listagjof.listahatid.is þar sem hægt er að panta listaglaðning fyrir einhvern sem þér er kær,“ segir Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.

Ferlið er einfalt: „Þú bara ferð inn á þessa vefsíðu, kostar ekki neitt, og pantar listagjöf fyrir til dæmis ömmu þína sem þú hefur ekki fengið að knúsa lengi eða fyrir vinkonu sem hefur verið sérstaklega góð við þig. Þú pantar gjöfina og finnur ákveðið tímaslott sem hentar. Á laugardag eða sunnudag kemur svo frábær listamaður eða jafnvel tveir bara að dyraþrepinu og gleður með stuttum listgjörningi, litlum tónleikum eða uppákomu; danssýningu, sirkus, ljóðalestri, það getur verið ýmislegt,“ segir Vigdís.

Óvænt fyrir alla

Í boði eru 140 gjafir sem deilast niður á hverfi borgarinnar, samkvæmt korti inni á vef Listagjafar. Þar er tilgreindur viðtakandi og staðsetning, en ekki er vitað fyrir fram hvaða viðburð hver viðtakandi fær. „Enginn veit fyrirfram hvaða atriði verður fyrir valinu, listamaðurinn verður fyrst ljós við afhendingu. Það er óvænt fyrir alla hver kemur.  Ég get samt sagt að það er fullt af landsþekktum stórum nöfnum þarna og allt þetta listafólk er af besta klassa og mjög spennt að taka þátt í þessu. Þetta er allt frá því að vera hornleikari yfir í að vera dragdrottning í sirkuslistafólk og frábæra popptónlistamenn,“ segir Vigdís.