Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Taldi óþarft að mæta og segir málið skýrast í gögnum

14.12.2020 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: Íslenska óperan
Ekki var talin þörf á að Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri væri viðstödd aðalmeðferð í dómsmáli gegn Íslensku óperunni á föstudag. Þetta segir lögmaður sem gætir hagsmuna Óperunnar í máli sem Þóra Einarsdóttir óperusöngkona höfðaði vegna meintra kjarasamningsbrota. Steinunn Birna var ekki boðuð fyrir dóm, ólíkt því sem sagði upphaflega í frétt í gær.

Hann segir sjónarmið Þóru hafa birst í stefnunni og að þeim sjónarmiðum hafi verið svarað í greinargerð Íslensku óperunnar.

Fréttastofa fjallaði í gærkvöldi um aðalmeðferð í máli Þóru Einarsdóttur gegn Íslensku óperunni. Þóra sagði í samtali við fréttastofu að henni þætti miður að enginn frá Óperunni hefði mætt í dómsal til að heyra hennar sjónarmið.

Viðar Lúðvíksson, lögmaður Íslensku óperunnar í málinu, segir umbjóðanda sinn hafa talið ljóst að málið myndi skýrast af fyrirliggjandi gögnum. Spurður hvort umbjóðandanum hafi ekki fundist tilefni til að mæta í dómsal til að heyra hlið söngkonunnar ítrekar Viðar að málin hafi legið fyrir í gögnum málsins. „Þetta er bara deila milli verktaka og verkkaupa um efni samninga,“ segir hann. 

Aðspurður segir hann umbjóðanda sinn ekki telja ásakanirnar réttar. 

Segja samning við FÍH ekki gilda um verktakasamninga

Þóra sagðist í gær hafa stefnt Óperunni eftir að hafa tekið þátt í uppfærslu á óperunni Brúðkaupi Fígarós. Með því hafi hún viljað láta á það reyna hvort Íslensku óperunni bæri að fara að samningi við FÍH og virða vinnuverndarákvæði. 

Íslenska óperan frumsýndi Brúðkaup Fígarós í september í fyrra og í apríl var greint frá því að nokkrir einsöngvaranna í sýningunni hefðu kvartað undan óhóflegu vinnuálagi og leitað til stéttarfélags, Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH. Gunnar Hrafnsson, formaður félagsins, sagði þá í fréttum að samanlagðar launakröfur þeirra hefðu verið um fjórar milljónir króna. Hann teldi að samningur félagsins frá árinu 2000 ætti enn að gilda, enda hefði honum aldrei verið sagt upp.

Viðar segir að Íslenska óperan byggi meðal annars á því í dómsmálinu að sá samningur hafi gilt um söngvara með ráðningarsamning en gildi ekki um verktakasamninga eins og þá sem einsöngvarar gera við Íslensku óperuna. 

Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.