Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Støjberg gaf út ólögleg fyrirmæli

14.12.2020 - 16:02
Mynd: EPA / EPA
Rannsóknarnefnd danska þingsins hefur skilað áfangaskýrslu í máli Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra útlendinga og innflytjenda. Niðurstaða nefndarinnar er að Støjberg hafi gefið út ólögleg fyrirmæli er hún fyrirskipaði að láta aðskilja gifta hælisleitendur undir átján ára. 

Hefur alla tíð neitað að hafa brotið lög

Inger Støjberg hefur alla tíð neitað að hafa brotið lög og bent á minnisblað í ráðuneytinu þar sem segir að farið skuli að lögum. Í niðurstöðu nefndarinnar sem birt var í dag kemur fram að minnisblaðið hafi enga þýðingu. Enn fremur segir að Støjberg hafi verið vöruð við því að fyrirmæli hennar væru lögbrot.

Segist hafa viljað vernda ungar stúlkur

Sjálf hefur Støjberg ætíð sagt að hún hafi viljað vernda ungar stúlkur gegn þvinguðu hjónabandi. Þetta ítrekaði hún í dag í færslu á Facebook og jafnfram að hún hafi ekki brotið lög. Jens Ringbjerg, fréttaskýrandi Danmarks Radio, segir að niðurstaða rannsóknarnefndarinnar sé önnur; að hafi gerst hafi verið lögbrot, það hafi verið gefin út ólögleg fyrirmæli.

Fer mögulega fyrir Landsrétt

Folketinget, danska þingið, verður nú að ákveða næstu skref, segir Ringbjerg, skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé svo alvarleg fyrir Inger Støjberg að engin leið sé að líta fram hjá henni. Mögulega vítir þingið Støjberg en hún gæti einnig verið ákærð fyrir brot í embætti og þurft að svara til saka fyrir Landsrétti.