Þetta segir Sigurður Ármann Snævarr, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en hann var gestur Morgunvaktarinnar á Rás eitt í morgun. „Mér virðist í stórum dráttum að staðan núna í ár sé að það vanti 23 - 25 milljarða til að ná áætlun ársins. Ég hef verulegar áhyggjur af næsta ári, það lítur ekki vel út,“ segir Sigurður.
Hann segir að um 300 milljarða vanti inn í hagkerfið miðað við það sem ráð var gert fyrir í ár. „Það er fjárhæð sem við sjáum ekki koma til baka. Við höfum einhvern hagvöxt á næstu árum en hann dugar engan veginn til þess að skila okkur þessum 300 milljónum.Við erum að tala um 8% lækkun landsframleiðslu i ár. Og 2-3% hagvöxt á næsta ári.“
Erfitt að veita lögbundna þjónustu
Útsvar er stærsti tekjustofn sveitarfélaganna. Þegar atvinnuleysi eykst, eins og nú hefur gerst, minnka tekjurnar samhliða því. Sigurður segir að fjárhagsáætlanir liggi fyrir hjá allflestum sveitarfélögum landsins. Af þeim tíu stærstu búast átta við að skila neikvæðum rekstrarafgangi sem nemur um 7% af tekjum þeirra. Hann segir að staðan sé miklu verri en í hruninu. „Mér sýnist hún vera miklu svartari. Höggið í landsframleiðslu á tveimur árum í hruninu var 10%, á þessu eina ári er það í kringum 8%.“
Sigurður segir að það verði víða erfitt fyrir sveitarfélögin að veita lögbundna þjónustu. „Það mun víða standa tæpt. En sveitarfélögin munu veita hana.“
Vörn eða sókn
Sigurður segir að í þessari stöðu séu tvær leiðir. Þær séu að pakka í vörn eða leika sóknarbolta. Hann segir að tíu stærstu sveitarfélögin hyggi á fjárfestingar fyrir um 50 milljarða og að lántaka umfram afborganir verði um 40 milljarðar. „Þetta er ákveðið áhættuatriði en það er líka áhætta að gera ekki neitt.“
Hann segir að sveitarfélögin séu misvel sett. Allflest þeirra séu nú með hámarksútsvar og staðan sé verst þar sem ferðaþjónustan hafi verið helsta atvinnugreinin. „Þetta tekjufall hefur ekki komið jafnt niður á öllum sveitarfélögum. Það eru mörg sveitarfélög sem hafa þurft að þola gríðarlegt tekjufall.“