Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skólaliði grunaður um brot gegn barnungri dóttur sinni

Mynd: Fréttir / Fréttir
Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn í þarsíðustu viku, grunaður um að hafa beitt barnunga dóttur sína kynferðislegu ofbeldi. Myndefni sem sýnir barnaníð fannst á heimili hans og er talið að eitthvað af því hafi verið framleitt hér á landi. Maðurinn er starfsmaður í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og hefur unnið náið með börnum. Hann er ekki grunaður um að hafa brotið gegnum börnum í skólanum.

Maðurinn var handtekinn miðvikudaginn 2. desember. Hann er á fertugsaldri og er grunaður um að hafa beitt barnunga dóttur sína kynferðislegu ofbeldi.

Lögregla fékk ábendingu um málið þann sama dag og handtók manninn samstundis. Hann var yfirheyrður og sleppt að lokinni skýrslutöku, þar sem ekki var talin ástæða til þess að fara fram á gæsluvarðhald yfir honum. Ekki eru taldar líkur á að hann brjóti gegn fleiri börnum.

Sama dag og maðurinn var handtekinn fór lögregla í húsleit á heimili hans og fann þar myndefni sem sýnir barnaníð. Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að eitthvað af efninu hafi verið framleitt hér á landi. Munir á heimili mannsins voru haldlagðir og eru nú í rannsókn.

Foreldrar ekki upplýstir

Maðurinn er starfsmaður í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og hefur unnið þar sem skóla- og frístundaliði, og hefur því unnið náið með börnum á grunnskólaaldri. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa bæði stjórnendur skólans og yfirvöld í viðkomandi bæjarfélagi verið upplýst um málið.

Foreldrar barna í viðkomandi skóla hafa hins vegar ekki verið upplýstir um málið með formlegum hætti. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur það ekki verið gert vegna þess að maðurinn er ekki grunaður um að hafa brotið gegn börnum í skólanum. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögregla það þó sérstaklega til skoðunar, að maðurinn hafi unnið með börnum. 

Heimildir fréttastofu herma að málið sé á einstaklega viðkvæmu stigi.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV