Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sakar Andrew Cuomo um kynferðislega áreitni

14.12.2020 - 07:05
Photos from the opening of the new Delta Air Lines terminal in LaGuardia Airport in Queens, NY, on Tuesday, Oct. 29, 2019. (Chris Rank for Rank Studios)
 Mynd: Delta News Hub - Flickr
Lindsey Boylan, fyrrverandi aðstoðarkona Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York-ríkis, sakar hann um að hafa áreitt sig kynferðislega. Fjölmiðlafulltrúi Cuomo vísar ásökunum á bug.

Frá þessu greindi Boylan á Twitter í gær og sagði að Cuomo hefði áreitt sig í áraraðir og margir verið vitni að því. Hann hafi meðal annars ítrekað gert athugasemdir við útlit hennar.

Cuomo hefur gegnt embætti ríkisstjóra New York síðan árið 2011. Boylan vann fyrir efnahagsþróunarstofnun ríkisins frá 2015 til 2018 og starfaði sem aðstoðarkona fyrir Cuomo frá mars til október hið sama ár samkvæmt LinkedIn síðu hennar.

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Lindsey Boylan

Boylan hefur ekki viljað tjá sig frekar um málið og ekki svarað skilaboðum fjölmiðla samkvæmt fréttum The New York Times og The Wall Street Journal. Caitlin Girouard, fjölmiðlafulltrúi ríkisstjórans, segir ekkert til í ásökunum Boylan.

Frægðarsól Cuomo hefur risið mjög í COVID-19 faraldrinum og samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs íhugar Joe Biden, sem tekur við embætti forseta 20. janúar, að skipa Cuomo í embætti dómsmálaráðherra.