Rankaði við sér ofan á neyðarútgangshurð úti í skógi

Mynd: samsett / -

Rankaði við sér ofan á neyðarútgangshurð úti í skógi

14.12.2020 - 10:22

Höfundar

„Ég horfi á stóran eld og upp úr eldinum gnæfir flugmannsklefinn. Ég hugsa: Strákarnir eru allir dánir, það lifir enginn þetta.“ Svona rifjar Oddný Björgólfsdóttir flugfreyja upp mannskætt flugslys á Sri Lanka árið 1978.

DC-8 þota Loftleiða brotlenti í aðflugi að flugvellinum í Colombo á Sri Lanka 15. nóvember 1978. Hundrað áttatíu og þrír fórust með vélinni en 79 komust lífs af, þar af fimm Íslendingar. Þetta er mannskæðasta flugslysið í íslenskri flugsögu. Oddný Björgólfsdóttir komst lífs af. Hún rekur sögu sína í Glans á Rás 1. 

Upp úr eldinum gnæfði flugmannsklefinn 

Hún minnist þess að þegar komið var að aðflugi við Colombo-flugvöll hafi hún áttað sig á að ekki væri allt með felldu. „Þá sit ég í frameldhúsinu, svo byrjar högg, búmm, búmm, búmm, búmm. Ég vissi það seinna að þá voru vængir vélarinnar að höggva skóginn.“

Hún opnaði neyðarútganginn og rankaði síðan við sér ofan á hurðinni í skóginum. Flugvélin logaði. ,,Ég horfi á stóran eld og upp úr eldinum gnæfir flugmannsklefinn, og ég hugsa: Strákarnir eru allir dánir, það lifir enginn þetta.’’  Á meðan hún reyndi að ná áttum sá hún samstarfskonu sína koma æðandi út úr eldinum. „Svo horfi ég fyrir neðan hurðina og þá sýnist mér liggja dáinn maður fyrir neðan hurðina,’’ segir hún.

Var týnd alla nóttina

Í samræmi við eldhættureglur reyndu þær að koma sér í burtu frá vélinni en þá uppgötvaði Oddný að hún hafði ekki fullan mátt í líkamanum. „Ég var lömuð í fótunum. Hún tosaði mig eitthvað áfram, tosaði mig ofan í poll. Það var svo mikil rigning þarna. Svo segir hún: Ég ætla að deyja hjá þér, og svo er hún með opinn púls á úlnliðnum og það bara spýtist blóðið út.’’ 

Þær lifðu þó báðar af því innan skamms kom fólk þeim til bjargar. ,,Það komu innfæddir og reyna að fara drösla okkur í burtu. En ég fann að ég var brotin í bakinu og æpi á þá: I want a stretcher, I want a stretcher,’’ segir Oddný. Þar sem hún vildi komast á börur var hún flutt á annan spítala en hinir Íslendingarnir úr áhöfninni sem lifðu slysið af. Hún varð því viðskila við þá. „Þess vegna var ég týnd alla nóttina, ég var aðskilin frá hinum.“

Með þrotlausum æfingum tókst Oddnýju að læra að ganga að nýju og sneri aftur í flugfreyjustarfið vorið eftir slysið.  

Áfallahjálp ekki til á þessum tíma  

„Áfallahjálp var ekki í tísku þarna, hún var ekki til,“ segir Oddný. Hún segir að síðar hafi komið til landsins bandarískur læknir sem fann upp áfallahjálp í kjölfar Persaflóa-stríðsins. Hann hjálpaði henni að takast betur á við slysið. En þetta hefur þó enn þá áhrif, segir hún. „Þetta gleymist ekki. Þetta er svo mikið högg, að taka einhvern í blóma lífsins og setja upp í sjúkrarúm, lamaðan, það er áfall.“

Oddný Björgólfsdóttir sagði frá atburðarás og eftirleik flugslyssins í Glans á Rás 1. Heyra má þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sárt að kveðja föður sinn á líknardeild

Mannlíf

„Fátækt er fyrst og fremst valdaleysi“