Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Rafrænir gestir Þjóðleikhússins ræða við Jonathan Pryce

epa08206898 Jonathan Pryce arrives for the 92nd annual Academy Awards ceremony at the Dolby Theatre in Hollywood, California, USA, 09 February 2020. The Oscars are presented for outstanding individual or collective efforts in filmmaking in 24 categories.  EPA-EFE/DAVID SWANSON
 Mynd: EPA

Rafrænir gestir Þjóðleikhússins ræða við Jonathan Pryce

14.12.2020 - 14:07

Höfundar

Hinn ástsæli stórleikari Jonathan Pryce talar við íslenska aðdáendur í listamannsspjalli Þjóðleikhússins á fimmtudaginn. Gísli Örn Garðarsson, leikstjóri, stýrir spjallinu og aðdáendur geta sent inn spurningar til Pryce.

Jonathan Pryce hefur verið í hópi ástsælustu leikara heims um áratugaskeið. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir sviðsleik auk þess að leika í mörgum vinsælum stórmyndum. Árið 2019 lék hann á móti Anthony Hopkins í kvikmyndinni The Two Popes og Pryce var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinni í myndinni. 

Á meðal annarra stórmynda sem Pryce hefur leikið í má nefna Evitu, James Bond-myndina Tomorrow Never Dies og fyrstu þrjár myndirnar í Pirates of the Caribbean myndaflokknum. Pryce hefur einnig komið fram í fjölmörgum vinsælum sjónvarpsþáttum á borð við Game of Thrones og The Crown, en í þeim síðarnefndur leikur hans Filipus prins. 

Meðal sviðsverka þar sem Pryce hefur verið í burðarhlutverkum eru Hamlet, Comedians, Miss Saigon, Macbeth, Les Miserables, Oliver! og  My Fair Lady. Hann hefur tvisvar sinnum unnið til Tony-verðlauna fyrir sviðsleik. 

Þjóðleikhúsið býður leikhúsáhugafólki að taka þátt sér að kostnaðarlausu. Áhugasamir sendi beiðni um þátttöku á netfangið [email protected] og þar er einnig velkomið að senda inn tillögur að spurningum fyrir leikarann góðkunna. Þátttakendur fá svo senda rafræna slóð til að fylgja og taka þátt.

Spjallið fer svo fram fimmtudaginn 17. desember kl. 13.