Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Orð eru til að kveikja í, ekki til að panta sódavatn

Mynd: Arndís Lóa Magnúsdóttir / Arndís Lóa Magnúsdóttir

Orð eru til að kveikja í, ekki til að panta sódavatn

14.12.2020 - 14:37

Höfundar

Þegar orðum er kastað fram af hengifluginu verða til ljóð. Arndís Lóa Magnúsdóttir hefur sent frá sér magnaða ljóðabók um tungumálið og um ljóðið sem og um ástina og afbrigðilega líkama.

„Ég held ég hafi kannski hugsað svolítið ljóðrænt um heiminn lengi- eða í ljóðrænum myndum. Um tvítugt fór ég að skrifa ljóð en þessi ljóðabók er eiginlega öll unnin núna í vetur, í kóvíd.“

Ljóðabókin Taugaboð á háspennulínu skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn ber nafn bókarinnar, þar lýsir ljóðmælandi í tuttugu og fjórum tölusettum erendum vegferðinni til ljóðsins, til þess að verða skáld, allt frá frumöskrinu 

2.

kemur í heiminn
hljóðlaus
í blóðrauðu flæðarmáli
tunga flækist í slímugu þangin

vinstra heilahvel sendir taugaboð
til ótyngdra líkamsparta
sem eiga ekki samskipti
sín á milli

allar götur síðan
leitar þú frumöskursins

3.

trumbusláttur í vöðvum
talfærin þarf að stilla: tónhæðin fölsk
flöktandi tíðnibylgjur
rétt utan seilingar
hljóðleysur í frjálsu falli

samband út:
stopult

Tungumálið er forsendan og það þarf að læra, nema af þeim sem kunna áður en tungumál þeirra hörfar. Allt er breytingum undirorpið í hringrás lífsins

16

á meðan tíminn leggur árhringi
í börk krossgátusmiðsins
sankarðu að þér tungumálum
lærir að ferja tilfinningar
orð
flytja sögur um sæstreng
frá einum heimi til annars

(...)

„Já, það er rétt bókin hefst á fæðingu,“ segir Arndís Lóa „Þar er því lýst að eignast smám saman tungumál og samskiptum ljóðmælanda við eldri manneskju sem er byrjuð að glata tungumálinu. Ég eyddi mjög miklum tíma með ömmu minni og afa sem barn. Þau eru, eðli málsins samkvæmt, fædd löngu á undan mér og töluðu þar að leiðandi svolítið öðruvísi tungumál.“

„Krossgátusmiðurinn“, hinn mikilsverði leiðsegjandi inn í lönd tungmálsins vísar þannig að einhverju leyti til afa og ömmu en kannski líka til arfsins alls sem ekki er hægt að skilja sig frá um leið og hvert ljóðskáld, hvert ljóð verður að finna sína fótfestu í óræðum víddum tilvistarinnar

23.

einn daginn fer um líkamann svo mikil gleði
þúsund volta háspennulína
að þú kannt engin orð

stafirnir rísa upp af síðunum
hjálparlaust
og kasta sér fram
af hengiflugi

24.

á næturnar laumastu út
til að skrifa leyndarmál

heggur múrstein fyrir múrstein
með oddhvössum steini

ristir
sögu hinna þvoglumæltu
sögu hinna mállausu
í veggi heimsins

Arndís Lóa segir að því fylgi „mikið vald að geta tjáð sig og valdaleysi að geta ekki tjáð sig. (...) Þeir sem ekki geta tjáð sig með orðum geta haft mjög mikið að segja. Rödd þeirra þarf að heyrast. Að sama skapi liggur þeim sem geta tjáð sig ekki alltaf mikið á hjarta.“

Skynjunin er í fyrirúmi í síðari hluti ljóðabókarinnar Taugaboð á háspennulínu, sem ber yfriskriftina „Lifandi vísindi“. Arndís Lóa staðfestir að titilinn megi rekja til hins vinsæla tímarits með sama nafni þar sem m.a. undarlegum kvikindum er gjarnan lýst og eru þau oftar en ekki með skrítna líkamsstarfsemi.  

„Frábrugðnum eða afbrigðilegum líkömum er stundum líkt við dýr. Ég læt annan einstaklinginn vera með kryppu sem verður að skel eða skráp - það getur verið gott að vera með harða skel. Ég reyni þó að horfa jákvætt á þennan skrítna líkama og læt hann hafa ýmsa jákvæða eiginleika, hann flýtur og er með eins konar flotholt, kryppan verður að birgðastöð þar sem má geyma ýmislegt í hamfaraheimi, mat, súrefni og bækur. Kannski lifir þessi frábrugni líkami af hina venjulegu því hann getur lagað sig að erfiðum aðstæðum og er vanur þjáningu.“

En það hangir fleira á spýtunni í þessum síðari hluta ljóðabókar Arndísar Lóu Magnúsdóttur, tungumálið sem snerting og ástin sem skynjunin afhjúpar

7.

(...)

við spilum á líkama hvort annars
á tungumálinu sem við eigum sameiginlegt

hlustum á trumbusláttinn
í útlimum mínum.

Arndís Lóa Magnúsdóttir er fædd í Reykjavík. Taugaboð á háspennulínu eru hennar fyrsta bók og hlaut hún nýræktarstyrk Íslenskrar bókmenntamiðstöðvar fyrir handritið að henni. Arndís hefur lokið ba prófi í frönsku og bókmenntafræði og stundar nú nám í þýðingarfræði. Arndís kom fram á ljóðakvöldi Svikaskálda í Gröndalshúsi í síðast mánuði sem enn má horfa og hlusta á á facebooksíðu Svikaskálda.