Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Malasíska strandgæslan fann metmagn af metamfetamíni

14.12.2020 - 03:24
Mynd með færslu
Metamfetamín. Mynd úr safni. Mynd: Wikipedia
Strandgæsla Malasíu lagði í liðinni viku hald á rúmlega tvö tonn af metamfetamíni í bát sem eltur var uppi undan norðurströnd landsins. Er þetta stærsti fíkniefnafundur sem liðsmenn strandgæslunnar hafa gert frá því að hún var sett á laggirnar fyrir 15 árum. Efnið í lest bátsins var í 130 sekkjum sem merktir voru sem kínverskt te. Söluvirði þess er metið á sem svarar 3,3 milljörðum króna.

Haft er eftir sérfræðingum strandgæslunnar að efnið hafi að líkindum komið frá hinum svokallaða gullna þríhyrningi á landamærum Mjanmar, Laos og Taílands, og átt að fara til einhverra nágrannaríkja Malasíu, þar sem hærra verð fæst fyrir það.

Einn maður á þrítugsaldri var um borð í smyglbátnum og var hann handtekinn. Malasísk lög heimila dauðarefsingu fyrir alvarleg fíkniefnabrot. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV