Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggja til að Rjúkandi og Hvalá verði friðuð

Fossinn Rjúkandi í Hvalá. Myndin er tekin í júlí 2017.
Fossinn Rjúkandi í Hvalá. Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Náttúrufræðistofnun leggur til að friðun 26 fossa og selalátra verði sett á framkvæmdaáætlun Náttúruminjaskrár. Þar á meðal er er vatnasviðið sem fyrirhugað er að nýta í Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum.

Tillögur Náttúrufræðistofnunar eru gerðar að beiðni umhverfisráðherra. Tveir af tólf fossum og fossasvæðum, sem lagt er til að verði friðaðir, eru ekki á fossaskrá Náttúruverndarráðs. Það eru fossabrekkur í Rangárbotnum á Suðurlandi og fossar í Rjúkandi, Hvalá og Eyvindarfjarðará á Ströndum. Ef kæmi til friðunar á hinu síðarnefnda má leiða að því líkur að ekki verði af Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði sem á að virkja vatn á einmitt þessu sama svæði. Virkjunin er umdeild. Hún var sett á ís í vor þegar framkvæmdaraðilinn Vesturverk lokaði skrifstofu sinni eftir að kórónuveirufaraldurinn barst til landsins. 

Landselur og útselur eru á válista á Íslandi. Stofnunum hefur hrakað mikið á síðustu áratugum; útsel hefur fækkað um þriðjung á um 35 árum en landsel um meira en tvo þriðju á sama tíma. Náttúrufræðistofnun leggur til að sjö ný svæði verði friðuð í kringum landið til þess að vernda selalátur og sjö önnur stækkuð. Meðal nýrra svæða eru Ísafjarðardjúp, Húnaflói og Skeiðarársandur. 

Tillögur stofnunarinnar hafa enn ekki verið afhentar umhverfisráðherra. Þegar það hefur verið gert fara þær í umsagnar- og samráðsferli. Að sögn Náttúrufræðistofnunar gæti margt breyst áður en ráðherra leggur tillögurnar endanlega fram í þingsályktunartillögu á Alþingi.