Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Jólaálfar bjarga pakkasöfnuninni

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Dræm þátttaka hefur verið í jólapakkasöfnun Kringlunnar sem gerð er til að safna gjöfum handa börnum efnalítilla foreldra. Til þess að bæta úr þessu hafa jólaálfar gripið til sinna ráða.

Bjölluhljómur ómar þessa dagana í Kringlunni því þar eru jólaálfar önnum kafnir við að velja jólagjafir handa börnum. 

„Við erum að kaupa pakka og pakka þeim inn og setja það undir jólatréð og þeir fara til Mæðrastyrksnefndar,“ segir Bjarney Rós Sigurjónsdóttir jólaálfur.

Og það er ekki sama hvað er í pakkanum.

„Við kaupum fullt af spilum já og fullt af púslum,“ segir Birna Guðmundsdóttir jólaálfur.

Eru þetta allt harðir pakkar?

„Nei, sumir eru mjúkir. Til dæmis úlpur og vettlingar,“ segir Birna.

Jólapakkasöfnun í Kringlunni er áralöng hefð en í ár fór hún hægt af stað.

„Það var sláandi lítið sem kom í upphafi miðað við undanfarin ár. Það eru bara margar ástæður fyrir því. Það eru færri að koma. Fólk verslar öðru vísi. Það kemur ákveðið í hús, fer í þær búðir sem það þarf og er svo farið,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar.

En þörfin fyrir aðstoð fyrir jólin hefur ekki minnkað heldur þvert á móti.

„Við eigum von á að þurfa að aðstoða 1300 heimili fyrir jólin. Það er aukning frá í fyrra. Ætli það hafi ekki verið 1100 heimili í fyrra,“ segir Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.

Auk Mæðrastyrksnefndar fá Hjálparstarf kirkjunnar og Fjölskylduhjálpin pakkana úr söfnun verslunarmiðstöðva til að gefa áfram.

Anna segir að þetta dugi þó ekki handa öllum þeim sem óska aðstoðar. 

Óskað er eftir fjárframlögum frá fyrirtækjum til þess að unnt sé að kaupa fleiri gjafir.

„Ég held að það skipti bara öllu máli því það getur allt í einu gefið börnunum sínum jólagjafir og fær mat fyrir jólin,“ segir Anna.

Og vegna gjafatregðunnar ákváðu forráðamenn Kringlunnar að bjóða upp á nýbreytni.

Að setja upp form á netinu, kringlan.is. Þar getur fólk lagt inn upphæð ef það vill styrkja söfnunina. Það gefur framlag. Síðan erum við með þessa frábæru jólaálfa sem eru með okkur í liði. Þær fara sem sagt í verslanir og kaupa fyrir þessi framlög sem berast. Börn að finna gjafir fyrir börn. Þær eru sérfræðingarnir og þær eru að bjarga þessu með okkur. Og auðvitað allir viðskiptavinirnir sem eru svo góðhjartaðir að gefa,“ segir Baldvina.

Maísól Fransdóttir sá í dag um að raða pökkunum, sem hún og aðrir jólaálfar höfðu keypt og pakkað inn, undir stóra jólatréð í Kringlunni. 

„Álfarnir koma hlaupandi með kerruna og ég á vera svona hissa og tek við pökkunum, set þá og segi hvernig stafirnir eru,“ segir Maísól.