Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Joe Biden kominn með atkvæði frá 302 kjörmönnum

epaselect epa08245324 United States Democratic presidential candidate Joe Biden speaks during a campaign rally at the College of Charleston in Charleston, South Carolina, USA, 24 February 2020. The South Carolina primary is scheduled for 29 February 2020.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, tryggði sér á ellefta tímanum í kvöld atkvæði meira en 270 kjörmanna sem þarf til að vinna forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Veik von Donald Trumps, fráfarandi forseta, um að snúa taflinu við er því að engu orðin. Biden ætlar að ávarpa bandarísku þjóðina klukkan hálf eitt í nótt.

Guardian greinir frá.

Fyrr í kvöld greiddu kjörmenn í lykilríkjum eins og Pennsylvaníu, Georgiu, Wisconsin og Arizona atkvæði sitt eins og úrslit kosninganna höfðu sagt fyrir um.

Beðið var eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hjá kjörmönnum Kaliforníu-ríkis sem er með 55 kjörmenn eða fleiri en nokkuð annað ríki. Niðurstaðan lá fyrir á ellefa tímanum þar sem Biden var lýstur sigurvegariog er hann nú kominn með atkvæði 302 kjörmanna.  270 atkvæði þarf til að tryggja sér sigur. 

Kosningarnar hjá kjörmönnunum eru yfirleitt formsatriði og vanalega fylgjast fjölmiðlar lítt með þeim. Vegna ásakana Donalds Trumps um víðtækt kosningasvindl og samsæri hefur kastljós fjölmiðla beinst að þessum atburði en þær reyndust hvorki dramatískar né spennandi heldur fóru nákvæmlega eins og kosningarnar sögðu fyrir um. 

Úrslitin verða síðan endanlega staðfest á sérstökum fundi Bandaríkjaþings þann 6. janúar.  Biden og Kamala Harris, verðandi varaforseti, taka síðan við völdum í Hvíta húsinu þann 20. janúar.

Þótt engin hefð sé fyrir því að kjörmenn hagi atkvæðum sínum öðruvísi en úrslit kosninganna segja til um hefur það gerst. Fyrir fjórum árum ákváðu til að mynda sjö kjörmenn Trumps að svíkja lit og kjósa Hillary Clinton. Sú breyting breyttu þó engu um úrslit kosninganna.

Herferð forsetans gegn forsetakosningunum í nóvember varð svo til þess að Paul Mitchell, þingmaður Repúblikana í fulltrúadeildinni,  sagði sig úr flokknum í kvöld.  Hann sest í helgan stein á næsta ári og segir í yfirlýsingu að að árásir forsetans hafi haft skaðleg áhrif á bandarísku þjóðina.

Fréttin var uppfærð 22:54

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV