Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hver að verða síðastur að panta fyrir jólin

14.12.2020 - 21:38
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Það hefur verið brjálað að gera í póstþjónustu síðustu vikurnar og aldrei eins mikið og nú. Álagið hefur aukist jafnt og þétt frá því um miðjan október. Nú fer hver að verða síðastur að panta á netinu svo pakkarnir nái á rétta staði fyrir jól.

 

Pakkasendingar innanlands jukust um 125% nú í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra og annað eins eða meira verður í desember. Sendlar þeytast með pakka í heimahús og langar raðir eru fyrir utan pósthúsin og verða fram að jólum. Margfalt fleiri nýta sér nú netverlsun fyrir jólin og fækka þannig búðarferðum sem er jákvætt í ljósi ástandsins sem ríkir vegna kórónuveirufaraldursisn. Að sama skapi eykst álagið hjá þeim sem vinna við sendingarþjónustu.

Hörður Jónsson, framkvæmdarstjóri rekstrarsviðs Íslandspóst, segir að álagið hafi aukist jafnt og þett frá því um miðjan nóvember. Miklir álagstímar hafi verið í kring um „Singles day“ og „Black Friday“ en þessir dagar leiða til þess að jólaverslun hefjist nú fyrr hjá fólki.

„Það er búið að vera gríðarlegt álag á okkur í mjög langan tíma. Við erum bundin því að við erum með fjöldatakmarkanir og annað slíkt. Við vinnum hér í póstmiðstöðinni allan sólarhringinn á vöktum og erum að reyna að dreifa álagi. Þetta hefur gengið mjög vel en vissulega hefur álagið verið mjög mikið á stundum. Það hefur verið gríðarleg aukning í útkeyrslu núna í desember. Við keyrðum út hérna á höfuðborgarsvæðinu jafnmarga pakka fyrstu 9 dagana í desember og allan desembermánuð í fyrra.“

Að staðaldri vinna um 700 manns hjá Íslandspósti en yfir mesta álagstímann eru þeir um 1000.

Notkun póstboxa hefur líka aukist mikið. Það eru læst box sem pakkarnir eru sendir í og móttakendur hafa þrjá sólarhringa til að tæma boxið en það er ekki öllum sem tekst það í tæka tíð. Hörður segir að sprenging hafi orðið í nokun á boxunum.

„Í sjálfu sér er bara ákveðið hillupláss þar. Magnið er bara svo mikið og mikil eftirspurn eftir póstboxunum að í síðustu viku þá lentum við í smá afkastavandamálum og í þarsíðustu viku var veðrið ekki að spila með okkur þannig að við lentum í verulegum töfum en staðan er núna þannig að við erum búin að ná tökum á þessu og þetta er allt að komast á rétt ról.“

Síðasti dagur til að póstleggja pakka með Íslandspósti innanlands svo þeir nái til móttakenda er 18. desember. Ef fólk verslar jólagjarfir á netinu þarf það að tryggja að sá sem útvegar vöruna póstleggi hana fyrir þá dagsetningu en mikið á lag er á netverslun þessa dagana og pantanir ekki alltaf afgreiddar samdægurs.

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV