Hertar aðgerðir í Lundúnum
Í Lundúnum verður gripið til hertra ráðstafana - höfuðborgin, Essex og Hertfordskíri verða sett á þriðja og hæsta viðbúnaðarstig. Víða annars staðar í Evrópu fjölgar smitum hratt.
Aldrei fleiri á sjúkrahúsum í Svíþjóð
Fleiri sjúklingar liggja nú á sjúkrahúsum í Svíþjóð vegna COVID-19 en þegar ástandið var hvað verst í vor eða 2389. Það eru 65 fleiri en í lok apríl. Ástandið er verst í Stokkhólmi þar sem mikið álag er á gjörgæsludeildum. Johann Carlson, forstjóri Lýðheilsustofnunar Svíþjóðar, óttast að kórónuveiran sé að breiðast út með meiri hraða en nokkru sinni.
Segir Kaupmannahöfn hafa misst tökin á veirunni
Sisse Marie Willing, sem ber ábyrgð á heilbrigðismálum í borgarstjórn Kaupmannahafnar, sagði í dag að borgaryfirvöld hefðu misst stjórn á ástandinu. Hún kvaðst hafa miklar áhyggjur.
Áhyggjur í Hollandi og Póllandi
Í Hollandi er búist við að Mark Rutte, forsætisráðherra, tilkynni í kvöld verulega hertar aðgerðir til að reyna að stöðva kórónuveiruna. Í Póllandi óttast yfirvöld þriðju bylgju farsóttarinnar og búist er við að strangar lokanir verði framlengdar fram í miðjan janúar.