Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hröð útbreiðsla kórónuveirunnar víða í Evrópu

14.12.2020 - 18:12
Mynd: F. Sandberg / SVT
Nýtt afbrigði af kórónuveirunni hefur fundist á Englandi að því er Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, sagði í dag. Hann taldi þó að bóluefni virkuðu einnig gegn nýja afbrigðinu. Matt Hancock sagði að nýja veiruafbrigðið gæti verið ástæðan fyrir hraðri útbreiðslu á suðurhluta Englands. Veirusmitum fjölgar með miklum hraða í og við Lundúnaborg.

Hertar aðgerðir í Lundúnum

Í Lundúnum verður gripið til hertra ráðstafana - höfuðborgin, Essex og Hertfordskíri verða sett á þriðja og hæsta viðbúnaðarstig. Víða annars staðar í Evrópu fjölgar smitum hratt. 

Aldrei fleiri á sjúkrahúsum í Svíþjóð

Fleiri sjúklingar liggja nú á sjúkrahúsum í Svíþjóð vegna COVID-19 en þegar ástandið var hvað verst í vor eða 2389.  Það eru 65 fleiri en í lok apríl. Ástandið er verst í Stokkhólmi þar sem mikið álag er á gjörgæsludeildum. Johann Carlson, forstjóri Lýðheilsustofnunar Svíþjóðar, óttast að kórónuveiran sé að breiðast út með meiri hraða en nokkru sinni.

Segir Kaupmannahöfn hafa misst tökin á veirunni

Sisse Marie Willing, sem ber ábyrgð á heilbrigðismálum í borgarstjórn Kaupmannahafnar, sagði í dag að borgaryfirvöld hefðu misst stjórn á ástandinu. Hún kvaðst hafa miklar áhyggjur.

Áhyggjur í Hollandi og Póllandi

Í Hollandi er búist við að Mark Rutte, forsætisráðherra, tilkynni í kvöld verulega hertar aðgerðir til að reyna að stöðva kórónuveiruna. Í Póllandi óttast yfirvöld þriðju bylgju farsóttarinnar og búist er við að strangar lokanir verði framlengdar fram í miðjan janúar.