Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Höfnuðu hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu

Mynd með færslu
 Mynd:
Smábátasjómenn höfnuðu, á aðalfundi sínum á föstudag, hugmyndum um að kvóti verði tekinn upp við grásleppuveiðar. Þetta mál er umdeilt meðal smábátaeigenda en talsmaður þeirra vonar að menn sætti sig við niðurstöðuna.

Miklar og heitar umræður voru um það á framhaldsaðalfundi Landssambands smábátaeigenda hvort rétt væri að taka upp kvóta við grásleppuveiðar. Sjávarútvegsráðherra hefur kynnt frumvarp þess efnis og eru mjög skiptar skoðanir á því meðal sjómanna.

Hiti í mönnum en málefnaleg umræða

„Já, það var hiti í mönnum en það sem mér fannst einkenna umræðuna var að hún var málefnaleg og menn komu sínum sjónarmiðum á framfæri,“  segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS. Á fundinum var lögð fram tillaga, sem unnin er upp úr áliti fimmtán svæðisfélaga, um að hafna öllum hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu. Tillagan var að lokum samþykkt í atkvæðagreiðslu. „Það voru 27 sem greiddu því atkvæði en 16 voru á móti og 3 sátu hjá.“

Segir niðurstöðuna skýra

Þá var vísað til stjórnar tillögu um ákveðnar breytingar á formi veiðanna sem farið verður fram á við stjórnvöld. En Örn segir þetta skýra niðurstöðu aðalfundarins og vonar að menn sætti sig við hana. Og hann telur að þetta hafi áhrif á það hvað ráðherra gerir varðandi form á grásleppuveiðum. „Ja hún hlýtur að breyta heilmiklu þar sem ráðherrann hlýtur að taka tillit til þess sem kemur frá heildarsamtökunum.“