Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Erfitt að segja hvers vegna fólk hlýðir ekki

14.12.2020 - 12:08
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það sé erfitt að segja nákvæmlega til um það hvers vegna fólk sé farið að slaka á í sóttvörnum og hegðun sinni gagnvart kórónuveirufaraldrinum. Skilaboð almannavarna hafi verið skýr.

Þórólfur var spurður á upplýsingafundi hvers vegna fólk væri farið af stað og hvers vegna það væru meiri umsvif í þjóðfélaginu. 

„Það er erfitt að segja til um nákvæmlega hvað það sé sem geri það að verkum að fólk sé farið að slaka á,“ svaraði Þórólfur. Hann lagði áherslu á að fólk er beðið um að haga sér á ákveðinn hátt og vonast til að fólk fari eftir því.

„Skilaboðin okkar hafa verið mjög skýr. Ég veit ekki hvernig það á að orða þetta skýrar; Þar sem við erum að biðla til fólks að hegða sér á ákveðinn máta og gera fólki grein fyrir því að faraldurinn gæti farið á skrið eftir um það bil eina viku ef fólk passar sig ekki.“

Almannavarnir hafa ítrekað varað fólk við hópamyndunum því það getur verið uppspretta hópsýkinga. Erfitt getur verið að kveða umfangsmiklar sýkingar niður, eins og Íslendingar þekkja vel í bylgjunni síðan í haust. Þá hefur heilbrigðisráðherra sett reglugerðir sem banna hópamyndun fleirri en 10, nema við vissar aðstæður.

Þórólfur segir að það sé kannski rannsóknarefni hvernig best er að koma svona skilaboðum til fólks. Það er ekki góð leið að mála myndina öðruvísi en hún er. „Ég held að maður verði að vera sanngjarn í þeirri túlkun á því sem tölurnar eru að segja okkur,“ sagði Þórólfur.