Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja hvetja til orkuskipta með ívilnunum til bílaleiga

13.12.2020 - 10:49
Mynd með færslu
 Mynd: Valgerður Árnadóttir - RÚV
Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að heimilt verði að lækka skráða losun bíla sem bílaleigur flytja inn um 30 prósent áður en kemur til álagningar vörugjalds. Lækkunin geti aldrei numið hærri fjárhæð en 400 þúsund krónum á hvert ökutæki og verði háð því skilyrði að bílaleiga skuldbindi sig til þess að kaupa inn vistvænar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar

Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að ákvæði um þetta bætist við lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Í nefndaráliti meiri hlutans um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld segir að markmið ákvæðisins sé að hraða orkuskiptum með því að skapa jákvæða hvata fyrir ökutækjaleigur til þess að fjárfesta í vistvænum ökutækjum.

Tillagan er í takti við umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarpið þar sem var gerð grein fyrir vanda ökutækjaleiga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Samtökin lögðu einmitt til að heimilt yrði að lækka skráða losun ökutækja sem ökutækjaleigur flyttu inn um tiltekið hlutfall við útreikning vörugjalds. Í útfærslu samtakanna var þó lagt til að lækkunin yrði ekki háð skilyrðum fyrir árið 2021, en að heimildin framlengdist um allt að tvö ár fyrir þær bílaleigur sem uppfylltu skilyrði um að tiltekið hlutfall nýskráðra bifreiða væru vistvænar.

Til að koma í veg fyrir misnotkun á úrræðinu leggur meiri hlutinn til að þeim bíaleigum sem ekki standa við skuldbindingar sínar um lágmarkshlutfall vistvænna ökutækja verði gert að endurgreiða mismun á vörugjaldi og fullu vörugjaldi að viðbættu 10% álagi.

Samhliða tillögunni leggur meiri hlutinn til að ráðist verði í heildarendurskoðun á reglum um bílaleigur.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV