Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það þarf ekkert mikið til að hópsmit blossi upp“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Afar mikilvægt er á því stigi sem kórónuveirufaraldurinn er á núna að fólk komi ekki saman umfram þann fjölda sem sóttvarnareglugerð kveður á um.  Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann segir að hafi sú verið raunin um helgina, megi búast við aukningu smita síðar í vikunni.

Í gær greindust sjö kórónuveirusmit og voru allir í sóttkví. Þórólfur segist ekki vita um tengsl á milli þeirra eða hvort að um hópsýkingu hafi verið að ræða. 

„Það var tekið minna af sýnum í gær en það er ánægjulegt að það skuli ekki vera fólk utan sóttkvíar að greinast. Sem segir að þetta er áfram niðri, eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem send var í morgun sagði að afskipti hefðu verið höfð af fjölmennum samkomum í gærkvöld og í nótt. Fréttastofa grennslaðist fyrir um málið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt atvikaskráningu var aðeins um eitt partý að ræða þar sem voru fleiri en tíu manns. Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagði í samtali við fréttastofu að útköll vegna hávaða hefðu verið 21, öll smávægileg.

Engin grunur er um brot á sóttvarnarreglum nema í málinu þar sem fleiri en tíu komu saman. Á föstudag stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tvö partý þar sem fleiri en tíu komu saman.  

Þórólfur segir að hafi verið eitthvað um hópamyndanir um helgina, sé það  vís vegur til að koma smitum aftur af stað. „Það ætti þá að skila sér í tölum núna seinna í vikunni. Eða um næstu helgi,“ segir hann.

Fólk með hjarta- og lungnasjúkdóma er í forgangi

Þórólfur segir að undirbúningur fyrir bólusetningu sé nú á fullu. Verið sé að taka saman lista yfir þá einstaklinga sem tilheyri þeim forgangshópum sem eru skilgreindir í reglugerð um bólusetningar. Meðal þeirra sem eru í forgangi er fólk með langvinna sjúkdóma.  „Það eru einstaklingar með hjarta- og lungnasjúkdóma, það eru einstaklingar með sykursýki, offitu og þar fram eftir götunum sem við vitum að hafa farið illa út úr sýkingunni.“

Vissulega séu það góð tíðindi hversu fá smit hafi greinst undanfarið og hátt hlutfall þeirra sem greinast hafi verið í sóttkví. „En við vitum líka frá fyrri reynslu að það þarf ekkert mikið til að það blossi upp eitthvert hópsmit ef fólk gætir ekki að sér. Þetta getur breyst á augabragði ef menn passa sig ekki.“