Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Svíar fjölga gjörgæslurýmum vegna COVID

13.12.2020 - 12:47
epa08761815 People pass a trash can with a sign reading 'The danger is not over - Keep your distance' in a pedestrian street in central Uppsala, Sweden, 21 October 2020. Due to an increase of Covid-19 cases in the region of Uppsala, new local recommended restrictions has been instated to curb the corona pandemic.  EPA-EFE/Claudio Bresciani SWEDEN OUT
 Mynd: EPA
Fjölga þarf gjörgæslurýmum á sjúkahúsum í Svíþjóð vegna kórónuveirufaraldursins. Dugi það ekki til verða sjúklingar sem þurfa á gjörgæsluinnlögn að halda hugsanlega sendir á gjörgæsludeildir á hinum Norðurlöndunum.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins, SVT, segir að nú séu 680 gjörgæslurými á sænskum sjúkrahúsum.  Þau eru nánast öll full, til dæmis eru 99% af öllum gjörgæslurýmum á sjúkrahúsum í Stokkhólmi full. Heilbrigðisyfirvöld í Noregi og Finnlandi hafa lýst sig reiðubúin til að hlaupa undir bagga með Svíum.   

Í áætlun sem sænsk heilbrigðisyfirvöld kynntu í dag og taka á gildi á föstudaginn er lögð áhersla á meira samstarf á milli sjúkrahúsa og að þeir sjúklingar sem þurfi á gjörgæsluinnlögn að halda geti flust á milli sjúkrahúsa, gerist þess þörf.

Á föstudaginn var tilkynnt um andlát 160 Svía af völdum COVID-19, en alls hafa 7.514 látist úr sjúkdómnum í Svíþjóð og er hann nú þriðja algengasta dánarorsökin í landinu. Um 7.400 smit greindust í landinu á föstudaginn og meira en 320 þúsund hafa greinst með veiruna síðan faraldurinn braust út.  Á fjórða þúsund Svíar hafa þurft að leggjast inn á gjörgæslu með COVID-19.  

Í síðustu viku gaf Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar út þau tilmæli að átta mætti koma saman um jól og bað fólk ennfremur um að halda sig frá verslunum og almenningssamgöngum.