Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir málefni kvenna Miðflokksmönnum hugleikin

13.12.2020 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Miðflokksins studdu tillögu Andrésar Inga Jónssonar þingmanns um að tíðavörur yrðu endurgjaldslausar fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum og lágtekjufólk. Allir viðstaddir þingmenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni sem var felld með einu atkvæði. Bergþór Ólason, þingflokksformaður flokksins, segir málefni kvenna ofarlega á lista flokksins. 

„Skynsamlega fram sett“

„Við studdum þessa tillögu því okkur fannst hún skynsamlega fram sett. Það eru hópar sem eru afmarkaðir þarna sem eru nemendur í grunn- og framhaldsskólum annars vegar og hins vegar lágtekjufólk. Að slíkir hópar gætu fengið tíðavörur endurgjaldslaust á heilsugæslustöðvum eða í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta þótti okkur bara skynsamlega fram sett tillaga,“ segir hann. Hugmynd sem þessi hafi svo sem ekki komið upp innan þingflokksins. „En okkur þótti þetta ágæt tillaga þegar við sáum hana“ segir hann. 

Málefni kvenna „ofarlega á lista“

Í þingflokki Miðflokksins eru átta karlar og ein kona en þingmenn flokksins hafa verið gagnrýndir harðlega fyrir umræðu um konur sem náðist á upptöku á Klaustri-bar. Aðspurður hvort þingflokkurinn sjái fyrir sér að setja mál sem þetta á oddinn á næstunni segir Bergþór málefni kvenna þeim hugleikin. „Ég held að ég geti sagt að málefni kvenna, hvort sem það er þetta eða önnur, þau verða án nokkurs vafa ofarlega á lista hjá okkur þegar kemur að því að gera þetta samfélag betra,“ segir hann.

Hvaða önnur mál eru það? „Það verður bara að koma í ljós þegar við birtum áhersluatriði okkar, að minnsta kosti ef þú meinar í aðdraganda kosninga. Það eru auðvitað ýmis velferðarmál sem við höfum verið að leggja áherslu á. Við leggjum til dæmis áherslu á að fæðingarorlof verði til ráðstöfunar að fullu milli foreldra, þannig að hagsmunir barnsins séu alltaf í forgrunni. Við teljum að það styrki stöðu kvenna,“ segir hann. 

Sú skoðun er á skjön við álit ASÍ, BHM og BSRB en félögin hafa öll lýst eindregnum stuðningi við áform Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um að fæðingarorlofi verði skipt jafnt milli foreldra og að heimilt verði að framselja einn mánuð. Þau telja að jöfn skipting styðji stöðu kvenna á vinnumarkaði. Í umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarpið segir jafnframt að jöfn skipting fæðingarorlofs sé réttarbót sem stuðli að bættri stöðu kvenna og auknu kynjajafnrétti hér á landi.