Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hluta vottorða vegna mótefnis hafnað á landamærunum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Landamæraverðir hafa tekið við erlendum vottorðum vegna mótefnis við COVID-19 síðan á fimmtudag, til viðbótar við vottorð um staðfest smit á Íslandi. Strangar reglur gilda um vottorðin. Af fjórtán vottorðum sem skilað var inn á fimmtudag var tveimur hafnað, og af tíu sem skilað var inn á föstudag var fimm hafnað. 

Séu vottorðin tekin gild sleppur fólk við sóttkví og sýnatöku. Staðfesting á smiti er ekki nóg, vottorðin þurfa að vera sérstök rannsóknarvottorð, á ensku eða norðurlandamáli, frá rannsóknarstofu í EES eða EFTA ríki, eða staðfesting frá sóttvarnarlækni á Íslandi. Vottorðið má vera á pappír eða rafrænu formi og landamæraverðir meta hvort vottorðið er gilt og kalla til heilbrigðisstarfsmann ef vafi er á því. Lokaákvörðun um gildi vottorðs er á ábyrgð sóttvarnalæknis.

Sjö af tuttugu og fjórum ógild

265 farþegar komu til landsins á fimmtudag og 280 á föstudag. Samkvæmt upplýsingum frá almannavörum skiluðu 24 inn vottorðum við komuna til landsins þessa daga, en sjö þeirra voru ógild. Það var meðal annars vegna þess að þau voru frá landi utan Evrópu, ekki á ensku eða norðurlandamáli eða voru vottorð um neikvæða niðurstöðu en ekki yfirstaðna sýkingu eða mótefni. Ef vottorðið er ógilt þarf viðkomandi að sæta sömu sóttvarnarráðstöfunum og aðrir. 

Stórir ferðadagar fram undan

Í gær var stór dagur í komum til landsins miðað við síðustu vikur og mánuði. Um 670 farþegar komu svipuðum tíma á síðdegis frá Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Amsterdam og Riga. Flestir farþegar voru Íslendingar á leið í jólafrí. Komum til landsins fjölgar jafnt og þétt næstu daga. Stærstu komudagarnir verða að öllum líkindum átjándi og nítjándi desember.