Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Helmingi færri starfa á vegum starfsmannaleiga

13.12.2020 - 08:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tæplega helmingi færri störfuðu á vegum starfsmannaleiga og erlendra þjónustufyrirtækja hér á landi í nóvember á þessu ári en í nóvember í fyrra. Samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar voru það um 600 manns nú í nóvember en rúmlega 1.100 í fyrra.  

Fækkað hjá starfsmannaleigum og þjónustufyrirtækjum

Nú í nóvember voru 25 erlend þjónustufyrirtæki með starfsemi hér á landi með samtals 196 starfsmenn. Þá voru starfsmenn starfsmannaleiga, innlendra og erlendra samtals 403 á vegum 22 starfsmannaleiga. Í nóvember í fyrra var 41 erlent þjónustufyrirtæki með starfsemi á Íslandi með samtals 216 starfsmenn. Þá voru starfsmenn starfsmannaleiga samtals 900, á vegum 24 starfsmannaleiga.

Starfsmannaleigur eru fyrirtæki sem leigja út starfsmenn gegn gjaldi til að sinna störfum fyrir hin ýmsu fyrirtæki, ekki síst í byggingariðnaði. Samkvæmt tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar dróst fjöldi þeirra sem starfa í byggingariðnaði saman um 10 prósent á tímbilinu frá ágúst í fyrra til ágúst á þessu ári. Erlend þjónustufyrirtæki eru fyrirtæki skráð í öðru ríki innan EES, EFTA eða Færeyjum sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands.

Jafnmörg atvinnuleyfi og í nóvember í fyrra

Vinnumálastofnun gaf út 168 starfsleyfi til fólks sem kemur frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins til að starfa hér á landi í nóvember, jafnmörg og í nóvember í fyrra. 115 þeirra voru framlenging á fyrra leyfi og 52 þeirra voru ný starfsleyfi. 37 leyfanna voru gefin út á grundvelli þess að það væri skortur á vinnuafli. 39 prósent leyfanna voru vegna starfa sem krefjast sérfræði- og starfsmenntunar, 23 prósent vegna starfa verkafólks og átján prósent vegna þjónustustarfa.