Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Taka yfirlýsingu W.O.M.E.N. „mjög alvarlega“

12.12.2020 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi (W.O.M.E.N.) sendu í gær frá sér yfirlýsingu þar sem þau skoruðu á Reykjavíkurborg að taka til skoðunar að veita Fjölskylduhjálp ekki fjárstuðning á næsta ári vegna ásakana um að félagið mismuni fólki á grundvelli þjóðernis og trúarbragða. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við fréttastofu að ráðið taki yfirlýsinguna mjög alvarlega. Hún verði höfð til hliðsjónar við úthlutun styrkja til hjálparsamtaka.

Alvarlegar ásakanir um mismunun

Yfirlýsing W.O.M.E.N. var birt í kjölfar fréttaflutnings Vísis og Stöðvar 2 um ásakanir á hendur Ásgerði Jónu Flosadóttur, formanni Fjölskylduhjálpar. Í fréttinni er meðal annars rætt við sjálfboðaliða sem segist hafa hætt að sinna störfum fyrir Fjölskylduhjálp eftir að hafa orðið vitni að alvarlegri mismunun á fólki á grundvelli trúarbragða.

Í yfirlýsingunni rifja W.O.M.E.N. meðal annars upp að sambærilegt mál hafi komist í hámæli fyrir tíu árum þegar formaður Fjölskylduhjálpar varð uppvís að orðræðu sem einkenndist af kynþáttafordómum. 

Þá hvetja samtökin Reykjavíkurborg til að axla ábyrgð með því að ráðast í rannsókn á málum Fjölskylduhjálpar og hætta að veita félaginu fjárhagsstuðning, eins og Velferðarráð hefur gert síðustu ár, reynist fótur fyrir ásökununum. 

Hafa yfirlýsinguna til hliðsjónar við úthlutun styrkja

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að ráðið taki yfirlýsingu Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi um Fjölskylduhjálp mjög alvarlega. „Þessi yfirlýsing frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna er gagn sem ber að taka mjög alvarlega, þetta eru alvarlegar ásakanir. Við munum hafa það til hliðsjónar við úthlutun styrkja í framhaldinu,“ segir hún.

Fólk oft leitað til Pepp

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, formaður Pepp, samtaka fólks um fátækt, segist í samtali við fréttastofu oft hafa tekið á móti fólki sem fékk óásættanlegar viðtökur við matarúthlutun Fjölskylduhjálpar. Fólk hafi hreinlega grátið undan Ásgerði Jónu, formanni Fjölskylduhjálpar, og að gjarnan hafi viðmót hennar litast af kynþátta- eða trúarbragðafordómum.