Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svo ljóslifandi og bjart

Mynd með færslu
 Mynd: - - RecordRecords

Svo ljóslifandi og bjart

12.12.2020 - 11:52

Höfundar

Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius senda nú frá sér jólaplötu í sameiningu og kallast hún einfaldlega Það eru jól. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Það eru jól er í raun safnplata en Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius hafa gefið út stök jólalög á hverju hausti síðan 2014. Að auki eru á plötunni þrjú ný lög. Tvíeykið er ekki ókunnugt tónrænu helgihaldi, þau hafa haldið vinsæla jólatónleika saman og hafa bæði staðið að eigin plötum ef svo mætti segja, Sigurður árið 2009 með Memfismafíunni og Sigríður gaf út Jólakveðju árið 2013.

Lögin eru að mestu eftir Sigurð og Braga Valdimar en svo eru hér tökulög. „Er líða fer að jólum“ og „Hvað ertu að gera á gamlárs?“ voru t.d. tekin upp sérstaklega fyrir þessa útgáfu. Titillagið er þá nýtt.

Bragur plötunnar er margs kyns. „Freistingar“, sem opnar plötuna, er sálargrúv og textinn afar greinilega eftir Braga Valdimar en ýmis orð og hendingar lúta einkennislagi hans. „Vindar að hausti“ er eftir  Antônio Carlos Jobim og textinn eftir Birki Blæ, skemmtilegt lag og grallaralegt og að sjálfsögðu með suðrænni sveiflu! Titillagið er gott, höfugt og hægstreymt. Sigurður ber það með sinni einstöku rödd, lagið einslags ástarvísa eður -óður. Fallegt lag. „Hjarta mitt“ er í svipaðri Stax-stemmu og upphafslagið á meðan „Notalegt“ ber nafn með rentu. „Annað haust“ og enn er skrúfað upp í farfísunni. Sigurður og Sigríður sitja vel í laginu hvar þar töltir letilega í góðu jólagrúvi.

„Er líða fer að jólum“ var gert ódauðlegt af Ragnari Bjarnasyni og söngvararnir gera því að sjálfsögðu glæsileg skil. Gott að segja það hér og nú, höfundar þessarar plötu eru með okkar frambærilegasta tónlistarfólki/söngvurum í dag. Samstarf þeirra er með eindæmum gjöfult, telepatísk tengslin á milli þeirra – þó ólíkar séu raddirnar – eru slík að undrum sætir. Þau syngja og saman í Góss eins og landsmenn vita og gæðin eru söm þar. „Desemberkveðja“ rennur niður þessa sömu sálarkvísl og ég hef nefnt hér fyrr en svo er slauffað með „Hvað ertu að gera á gamlárs?“ sem við þekkjum sem „What are you doing New Years Eve?“. Dásamleg ábreiða, stemning ekki ósvipuð þeirri sem er að finna á frábærri plötu Sigurðar, Oft spurði ég mömmu? Magnað andrúm, árið 1950 allt í einu runnið upp og maður sekkur fíling í, svo ég beiti fyrir mér Braga Valdimarísku. Frábært!

Ekki amalegt að fá svona bústið verk í skóinn á þessu erfiða ári. Takk fyrir mig og gleðileg jól bæði tvö. Megi þau næstu verða ykkur gæfurík.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Sigurður og Sigríður - Það eru jól