Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir rekstur spilakassa samræmast gildum Háskólans

12.12.2020 - 19:49
Mynd:  / 
Rektor Háskóla Íslands hafnar því að það gangi í berhögg við gildi háskólans að taka þátt í rekstri spilakassa. Það sé stjórnvalda að breyta fyrirkomulaginu, ekki skólans.

SÁÁ ákvað í fyrradag að hætta þátttöku í rekstri spilakassa í gegnum sameignarfélagið Íslandsspil, þar sem stjórnarmenn samtakanna telja reksturinn siðferðislega rangan. Rauði krossinn og Landsbjörg auka hins vegar hlut sinn í félaginu.

Háskóli Íslands hefur einnig hagnast verulega á rekstri spilakassa í gegnum Happdrætti Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir því í lögum um fjármögnun háskólans. Happdrættið hefur fjármagnað nær allar byggingar Háskóla Íslands. Til að mynda er hús íslenskunnar, sem hefur tekið á sig mynd hér í Vesturbæ Reykjavíkur, að hluta til fjármagnað með þessum hætti. 

„Þessi rekstur spilakassa getur bara ekki samræmst gildum, hvort sem um ræðir Rauða krossins, Landsbjargar eða Háskóla Íslands. Nú vitum við að bróðurparturinn af þessum tekjum eru að koma frá veikum spilafíklum. Það er sá hópur sem er að stunda þessa spilakassa hvað mest og við spyrjum þessu samtök og vonum að þau velti því fyrir sér hvaða peninga þau vilja,“ segir Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, gaf ekki kost á viðtali í dag vegna málsins. Í skriflegu svari segir hann að það sé stjórnvalda, ekki Háskólans, að ákveða breytingar á þessu fyrirkomulagi teljist þær nauðsynlegar.

Þá fari starfsemin ekki gegn gildum skólans þar sem tekjurnar skipti verulegu máli fyrir íslenskt samfélag og vegna þess að HHÍ hafi sýnt frumkvæði á sviði ábyrgrar spilunar. Jafnframt segir rektor að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem spili í Happdrættinu geri það af ábyrgð.

Rektor svarar því hvorki hvort hann telji bagalegt fyrir Háskólann að þiggja fjármagn með þessum hætti eða hvort hann hafi farið þess á leit við ráðherra að þessu verði breytt. Hann sé hins vegar alltaf til í að ræða við ráðherra um fyrirkomulagið.

Svar rektors við fyrirspurn um þátttöku Háskólans í rekstri spilakassa:
Það var ákvörðun Alþingis, með lagasetningu, að fjármagna ætti byggingar Háskóla Íslands, viðhald þeirra og tækjakaup með happdrættisfé. Þessi ákvörðun hefur reynst happadrjúg fyrir uppbygginu Háskóla Íslands og íslensks samfélags. Það er stjórnvalda, ekki Háskólans, að ákveða breytingar á þessu fyrirkomulagi teljist þær nauðsynlegar. 

Happdrætti Háskóla Íslands hefur beitt sér á sviði ábyrgrar spilunar og aðgerða til að stemma stigu við spilafíkn. Þegar litið er til þessa frumkvæðis Happdrættis Háskóla Íslands og mikilvægis starfseminnar fyrir íslenskt samfélag verður að telja að umrædd lögbundin starfsemi fari ekki gegn gildum Háskóla Íslands um akademískt frelsi, jafnrétti og fagmennsku. Vert er að árétta að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem spila í Happdrætti Háskóla Íslands gera það af ábyrgð. 

Happdrætti Háskóla Íslands hefur á tæpum 90 árum fjármagnað á þriðja tug bygginga sem notaðar eru í kennslu, rannsóknir og fjölbreytt fræðastörf. Þetta eru því tekjur sem skipta verulegu máli ekki bara fyrir Háskóla Íslands heldur fyrir íslenskt samfélag. 

Forsvarsmenn Happdrættisins hafa um árabil rætt við dómsmálaráðherra um fyrirkomulag umhverfis happdrættismarkaðarins og netspilunar á Íslandi. Mikilvægt er að tryggja að settar séu reglur um netspil þannig að margir milljarðar renni ekki eftirlitslaust úr landi. Háskóli Íslands á í stöðugu samtali við stjórnvöld um fjármögnun starfseminnar og er að sjálfsögðu alltaf reiðubúinn að ræða við ráðherra um fyrirkomlagið.