Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Óttast um afdrif allt að 400 skóladrengja í Nígeríu

12.12.2020 - 23:43
epa03709273 Nigerian soldiers arrive in Yola, Nigeria, 20 May 2013. Following the declaraton of a state of emergency in Yobe, Borno and Adamawa states of Nigeria last week, troops have been moved in numbers to the north east of the country to combat Boko
Nígerískir her- og lögreglumenn á ferð um Borno, þar sem vígamenn Boko Haram hafa staðið fyrir blóðugum hryðjuverkum og árásum um árabil. Mynd: EPA
Óttast er um afdrif allt að 400 nemenda í heimavistarskóla í norðvesturhluta Nígeríu, eftir að hópur þungvopnaðra manna réðst þar til atlögu seint á föstudagskvöld og nam fjölda nemenda á brott með sér. Árásarmennirnir komu að skólanum akandi mótorhjólum og skjótandi af hríðskotarifflum sínum.

Um 800 nemendur eru í Vísinda- og tækniskólanum í Kankara í Katsina-ríki, allt drengir. Mörgum þeirra tókst að flýja, en ekki er vitað með vissu hvar um 400 piltar eru niðurkomnir. Öryggisvörðum skólans tókst að hrekja nokkra árásarmenn á brott áður en lögregla kom á staðinn og elti flótta þeirra sem eftir voru.

Talsmaður Nígeríuhers greindi frá því í dag að hermenn hefðu fundið fylgsni árásarmannanna og skipst á skotum við þá. Ekki hefur verið upplýst hvernig þeim vopnaviðskiptum lauk en engar fregnir fara af frelsun eða falli nemenda í átökunum.