Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kolabrennsla á undanhaldi

Mynd: EPA / EPA
Notkun kola til orkuframleiðslu fer minnkandi og því er fagnað því enginn af orkugjöfum mannkyns mengar jafn mikið og kol. Það skiptir því miklu máli í baráttunni við hamfarahlýnun að draga úr og helst hætta brennslu kola. Miklar fjárfestingar þarf til að heimurinn geti orðið kolefnishlutlaus, en dýrasta aðgerðin er aðgerðarleysi, segir Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs.

Þrjátíu og níu prósent kolefnisútblásturs er vegna kola

Tuttugu og sjö prósent af orku heimsins eru framleidd með kolabrennslu og 39% kolefnisútblásturs eru vegna kola að því er fram kemur í breska tímaritinu Economist. Mannkynið hefur notað kol frá örófi alda, en kolanotkun jókst gríðarlega í iðnbyltingunni. Kol voru orkugjafinn sem knúði iðnbyltinguna. Lengi hefur verið ljóst að kolabrennsla mengar mikið, enda hlutfall kolefnis mjög hátt. Kolagröftur er afar hættuleg vinna og enn farast þúsundir kolanámumanna á hverju ári.

Kolanotkun minnkar ár frá ári

Kolabrennsla í heiminum náði hámarki á fjórða áratug tuttugustu aldar og hlutfallslegt vægi í orkunotkun heimsins hefur farið lækkandi síðan þá. Bretar, sem lengi voru mestu kolanotendur heims, loka síðasta kolaknúna raforkuverinu eftir rúmt ár. Kolanámugröftur, sem lengi var mikilvæg atvinnugrein, hefur lagst af þar í landi. Síðustu námunni var lokað fyrr á þessu ári, eigendur hennar fengu ekki leyfi til að auka framleiðsluna og þá var ekki grundvöllur til áframhaldandi reksturs. Það var ekki síst vegna þrýstings umhverfisverndarfólks sem yfirvöld höfnuðu því að framleiðslan yrði aukin.

Pólverjar ætla að hætta kolavinnslu

Helstu syndaselirnir í kolagreftri og -brennslu í Evrópu hafa verið Pólverjar, en stjórnvöld tilkynntu í nóvember að hætt yrði að nota kol í landinu fyrir 2050. Það eru vissulega 30 ár þangað til en þetta er til marks um það að æ fleiri þjóðir hafa ákveðið að hætta orkuframleiðslu með orkugjöfum sem menga andrúmsloftið.

Danir ætla að hætta olíuvinnslu

Danir ákváðu fyrir nokkrum dögum að veita ekki frekari leyfi til olíuleitar og hætta allri olíuvinnslu í Norðursjó árið 2050. Í samkomulaginu felst einnig að fé verður veitt til að rannsaka hvernig hægt sé að binda og geyma kolefni. Gert er ráð fyrir að þessi ákvörðun verði til þess að Danir losi 15 prósentum minna af gróðurhúsalofttegundum. Samkomulaginu er fagnað og Danir telja sig vera að gefa öðrum þjóðum fordæmi til eftirbreytni. Dan Jørgensen, orkumálaráðherra Danmerkur, segir að með þessu yrðu Danir fyrirmynd annarra olíuþjóða. 

Þyrfti að gerast hraðar

En þessar aðgerðir koma fyrst til framkvæmda eftir marga áratugi, Pólverjar halda áfram kolavinnslu í 30 ár. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, segir að samt sé mikilvægt að fagna því sem er að gerast núna. Þetta sé stórt skref fyrir Pólland þar sem kolavinnsla sé afar mikilvæg í mörgum kjördæmum. Æskilegra væri þó að þetta gerðist hraðar.

Ekki allir á móti kolavinnslu

Það er ekki svo að allir ráðamenn heims telji kolavinnslu og -brennslu af hinu illa. Donald Trump lofaði námamönnum í kosningabaráttunni 2016 að hann skyldi sjá til þess að kolanámur yrðu opnar. Hann undirritaði tilskipun þess efnis skömmu eftir að hann varð forseti 2017. Trump sagði tilskipun sína aflétta ónauðsynlegum, kostnaðarsömum og takmarkandi reglum um kolavinnslu. Með honum við undirritunina var hirð ráðherra, þingmanna, embættismanna og kolanámumönnum var einnig boðið.

Að elska kolin sín

Aðrar þjóðir elska kolin sín, hér höfum við ekki sýnt þeim næga virðingu. 

Donald Trump.

 

Sú staðhæfing að kol njóti sérstakrar ástar utan Bandaríkjanna á ekki við sérstök rök að styðjast. Halldór Þorgeirsson segir að þrátt fyrir aðgerðir Trumps hafi dregið úr kolanotkun í Bandaríkjunum. Það sé að hluta til vegna þess að ódýrara jarðgas hafi verið notað. Halldór segir að fjármagn sé að fara út úr kolunum.

Mesta kolanotkunin í Asíu

Kolanotkun hefur minnkað um 34% í Evrópu og Ameríku að sögn Economist. Mesta kolanotkunin er nú í Asíu og Halldór Þorgeirsson segir að þar skipti miklu máli hvað gerist í löndum eins Kína, Indlandi, Víetnam og Indónesíu. Það þurfi að hjálpa við að skipta yfir í endurnýjanlega orku. Það þurfi svo einnig miklar fjárfestingar í dreifikerfum til að koma endurnýjanlegri orku á markað.

Baráttan gegn veirunni getur vísað veginn

Margvísleg alþjóðleg samvinna hefur nú orðið til þess að bóluefni hafa verið þróuð gegn kórónuveirunni, og það fleira en eitt. Haldór Þorgeirsson segir að sú samvinna geti verið fyrirmynd, þetta sé svipuð vinna, hún byggist á vísindum, það þurfi að horfast í auga við staðreyndir.

Pólitískur vilji til að takast á við hlýnun loftslagsins

Það virðist vera vera pólitískur vilji meðal flestra ríkisstjórna heims að takast á við loftshlýnun. Ríkisstjórnir margra landa hafa það á stefnuskránni. Halldór segir það myndbirtingu á því sem fjallað er um í Parísarsamkomulaginu, að horfa til lengri tíma.

Eina leiðin til að halda aftur af röskun veðrakerfisins er að ná aftur jafnvægi í losun og bindingu.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs.

Milljónir deyja ótímabærum dauða vegna mengunar

Til að ná kolefnishlutleysi verður að hætta notkun orkugjafa eins og kola, olíu og jarðefnaeldsneytis, segir Halldór Þorgeirsson. Hann segir líka að þetta sé heilbrigðismál, tölur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sýni að fjórar milljónir deyi ótímabærum dauða vegna loftmengunar utanhúss og annað eins innanhúss. Að auki leiði loftmengun til langvarandi sjúkdóma.

Lækka verður styrk kolefnis í andrúmsloftinu

Halldór segir og að lækka þurfi styrk kolefnis í andrúmsloftinu með bindingu. Mjög spennandi verkefni, Carbfix, sé í gangi á Íslandi. Carbix-verkefnið gengur út á að binda koldíoxíð í steindum í bergi. Það verkefni hefur vakið athygli og nýlega fjallaði sænska ríkissjónvarpið um kolefnisbindingu í bergi á Íslandi. Þar var meðal annars rætt við dr. Söndru Snæbjörnsdóttur, sem lýsti því að binding koldíoxíðs gerist í náttúrunni. Eins og segir í kynningu á vefsíðu Orkuveitu Reykjavíkur:

Á undanförnum árum hefur vísindafólki Carbfix tekist að beisla þetta náttúrulega ferli kolefnisbindingar en Carbfix fangar koldíoxíð, og aðrar vatnsleysanlegar gastegundir eins og brennisteinsvetni, úr útblæstri og bindur í steindir í bergi á umhverfisvænan og arðbæran hátt.

Endurheimt vistkerfa

Halldór Þorgeirsson segir að mikið af þessu geti gerst í lífríkinu. Það hafi marga kosti að endurheimta vistkerfi. Skógrækt sé afar mikilvæg til að binda kolefni í trjáviði og neðanjarðar. Landgræðsla sé einnig mikilvæg.

Kjarnorka í stað kola í Póllandi

Í umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins segir að pólska stjórnin telji að Evrópusambandið sé að neyða Pólverja til að hætta kolavinnslu og að þeir ætli að reisa kjarnorkuver í stað kolaorkuvera. Það falli mörgum umhverfisverndarsinnum ekki í geð. Halldór Þorgeirsson segir að engin lausn sé algerlega án hliðarverkana. Ef eingöngu sé horft á málið út frá loftslagsmarkmiðum sé nútíma kjarnorkuver áhugaverður kostur. Út frá loftslagssjónarmiðum sé ekki stætt á því að segja að kjarnorka komi ekki til greina.

Sjötíu og sjö seðlabankar hafa með sér umhverfisklúbb

Vilja til baráttu gegn hamfarahlýnun má sjá víða, seðlabankar 77 ríkja hafa með sér eins konar umhverfisklúbb sem vinnur að því að þjóðir heims standi við Parísarsamkomulagið. Þannig er stefnt að því að fyrirtæki sem fá stuðning vegna skakkafalla í COVID-19 kreppunni þurfi að uppfylla kröfur um sjálfbæran rekstur. Halldór segir afstöðu margra stofnana og fyrirtækja hafa breyst mikið. Það valdi röskun ef fjárfest verður í kostum sem ekki bera arð til langs tíma.

Kolefnishlutlaust hagkerfi verður eina hagkerfið sem stendur til boða til framtíðar.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs.

Kostnaður ekki óviðráðanlegur

Samkvæmt grein í vísindatímaritinu Science er kostnaður við aðgerðir til að halda hlýnun innan við eina og hálfa gráðu helmingur þess sem þjóðir heims hafa þegar varið til varnar gegn kórónuveirunni, þetta eru varla óviðráðanlegar upphæðir? Alls ekki segir Halldór og bendir á að menn hafi borið saman tvær sviðsmyndir; að byggja upp innviði án þess að taka tillit til loftslagsmála og að taka tillit til loftslagsmála.  Munurinn sé innan við tíu prósent og þá sé ekki búið að reikna sér til tekna minni skaða. 

Dýrasta aðgerðin er aðgerðarleysi.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs.